10:37:48
Sögusagnir um að vandræðadrengurinn Stephon Marbury sé á leið til meistara Boston Celtics gerast nú æ háværari þar sem allir leikmenn Boston og þjálfarinn Doc Rivers hafa lýst því yfir að þeir séu jákvæðir fyrir því að fá þennan hæfileikaríka, en umdeilda leikstjórnanda til liðsins.
Nánar hér að neðan…
Marbury er enn á launum hjá NY Knicks, en hefur staðið í logandi deilum við forsvarsmenn liðsins og fyrrum samherja sína í leikmannahópnum síðan í sumar, þar sem hann er ekki í framtíðaráætlunum Knicks-manna.
Ekki hefur verið mikil ásókn í hans starfskrafta fyrr en nú þegar Boston hefur verið í tómu basli og tapað hverjum leiknum á fætur öðrum.
Kevin Garnett, stærsta stjarna Boston, og Marbury léku saman hjá Minnesota í upphafi ferils þeirra beggja í NBA, en Marbury gat ekki unað sér þar, m.a. vegna deilna við Garnett og hélt á önnur mið.
Garnett sagði í kjölfar tapsins gegn NY um daginn að hann hefði ekkert á móti því að fá Marbury til liðsins. "Allt sem getur gert okkur betri er vel þegið og allir sem koma hingað inn og skilja hvað er í gangi geta hjálpað okkur að verða betri," sagði Garnett. "Ég hef ekkert á móti Steph. Hann er enn mjög góður leikmaður með mikinn leikskilning. Hann er enn einn besti leikstjórnandinn í deildinni og ég hefði ekkert á móti því að fá hann til liðsins."
Heimild: Yahoo! Sports
ÞJ



