spot_img
HomeÚti í heimiEuroleagueMartin vill fá Luke Sikma í íslenska landsliðið “Hann er klár”

Martin vill fá Luke Sikma í íslenska landsliðið “Hann er klár”

Martin Hermannsson, leikmaður íslenska landsliðsins og Alba Berlin, var gestur í síðustu upptöku af Boltinn Lýgur Ekki. Í þættinum fór hann yfir ferilinn til þessa, stöðuna í dag, framtíðina og margt fleira. Í lokin var Martin fenginn til þess að velja draumalið núverandi eða fyrrum samherja.

Þar valdi hann Peyton Siva sem leikstjórnanda, Jón Arnór Stefánsson sem skotbakvörð, annaðhvort Rokas Giedraitis eða Marcus Eriksson sem litla framherja, Luke Sikma sem kraftframherja og Tryggva Snæ Hlinason sem miðherja.

Talaði Martin vel um alla leikmenn þessa draumaliðs síns, en þó líklega einna mest um framherja Alba Berlin, hinn bandaríska Luke Sikma. Sagðist Martin hafa verið að reyna að vinna í því að fá íslenskan ríkisborgararétt fyrir leikmanninn svo að þeir gætu einnig verið samherjar í landsliðinu. Sagði Martin að Luke væri klár í það verkefni og að bæði gæti Ísland vel nýtt sér krafta leikmannsins, sem og myndi hann passa fullkomlega inn í hópinn. 

Sagði Martin:

“Hann er með svona evrópskan stíl, fjarki sem getur skotið, tekið fráköst og líka póstað upp, fullkomið í íslenska landsliðið”

Hversu mikil alvara er í þessari vinnu Martins við að fá ríkisborgararétt fyrir Luke fylgdi ekki, en samkvæmt reglum má hver þjóð í flestum keppnum tefla fram einum leikmanni sem fengið hefur slíkan ríkisborgararétt. Er þetta valmöguleiki sem margar þjóðir nýta sér. Einna frægast dæma á síðustu árum er leikmaður Evrópumeistara Slóveníu, Anthony Randolph, sem fékk slóvenskan ríkisborgararétt og var einn besti leikmaður liðsins á lokamóti EuroBasket 2017.

Viðtalið við Martin er hægt að nálgast hér, en umræðuna um draumaliðið má finna á 01:35:00.

Fréttir
- Auglýsing -