spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaMartin: Viljum ekki vera bara Kári Jóns

Martin: Viljum ekki vera bara Kári Jóns

Haukar unnu sannfærandi sigur á Fjölni, 99-75 í fjóru umferð Dominos deildar karla í kvöld. Nánar má lesa um leikinn hér.

Israel Martin var sáttur með sína menn þó alltaf megi gera betur:

Nokkuð öruggur sigur Hauka að lokum en í ljósi þess að Moses og Orri voru ekki með hefðir þú kannski viljað sjá þitt lið loka þessum leik fyrr?

Þetta var jafn leikur þar til við lögðum okkur svolítið betur fram varnarlega. Fjölnir er lið sem spilar á háu tempói, þeir hafa góða gegnumbrotsleikmenn, Róbert er solid leikstjórnandi og Srdan ógnar bæði með gegnumbrotum og þristum svo þetta er bara gott lið og erfitt að stoppa þá. Þetta er mjög hættulegt lið, vel þjálfað, spilar vel saman og verða auðvitað enn betri þegar Orri og Moses koma til baka.

Þessi sigur hefur mikla þýðingu fyrir okkur, þetta var mikilvægur sigur. Mér fannst liðið sýna það í síðasta fjórðungi að leikmenn eru farnir að skilja hvernig við ætlum að spila. Við þurfum auðvitað að verja heimavöllinn og við gerðum það vel í dag. Einnig er ánægjulegt að margir lögðu sín lóð á vogarskálarnar – við viljum ekki vera bara Kári Jóns eða bara Flenard – við viljum vera lið og þá getum við verið hættulegir.

Það gerði ykkur lífið kannski svolítið þægilegt að hafa Flen og Robinson undir körfunni og Moses ekki með hjá Fjölni?

Jájá, en þetta snýst um að lesa í leikinn. Hefði Moses spilað hefði þetta orðið öðruvísi leikur. Um leið og ljóst var að Moses yrði ekki með þá settum við auðvitað upp plan og vildum koma boltanum undir körfuna. Við nýttum okkar styrkleika.

Auðvitað, og það gekk alveg prýðilega.

Já svo sannarlega, leikmenn fylgdu þessu vel eftir og herbragðið gekk vel upp.

Nú hefur þú sennilega ekki verið ánægður með vörnina hingað til hjá liðinu fyrr en kannski í síðari hálfleik í kvöld?

Ég vil ekki segja að ég hafi verið óánægður, frekar ánægður – EN við verðum að gera betur á síðustu 6 sekúndunum varnarlega. Við vinnum eftir ákveðnum varnarreglum og þær eru nýjar í augum allra leikmannanna. Við þurfum að komast betur inn í það og við erum að vinna grimmt í því. Við pressum allan völlinn og reynum að stytta skotklukkuna niður í 19 sekúndur og vörnin frá 19. sekúndu að þeirri sjöttu hefur verið svo gott sem fullkominn en við þurfum að ná betri einbeitingu síðustu sekúndurnar.

Að lokum, Kristinn Marinósson spilaði ekki í kvöld – hvað er að frétta af honum?

Hann fékk heilahristing síðasta tímabil en fór að finna til svima í fyrsta leiknum gegn Þór Ak. Hann er þó alls ekki jafn slæmur og á síðasta tímabili og við vonumst eftir að hann komi til baka fljótlega.

Sagði Israel Martin, hreinskilinn og nákvæmur í svörum, og honum hefur snarlega farið fram í íslensku…

Viðtal:Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -