spot_img
HomeFréttirMartin þjálfari með flottan feril

Martin þjálfari með flottan feril

Stefán Jónsson formaður KKD Tindastóls er hæstánægður með ráðningu félagsins á nýja þjálfaranum Israel Martin. Stefán sagði nýja þjálfarann vel til þess fallinn að taka við ungu og efnilegu búi Tindastóls sem leikur í Domino´s deild karla á næsta tímabili. Félagið er með 11. flokk, drengjaflokk og unglingaflokk á leið inn í úrslitakeppni karla sem og 10. flokk kvenna. Ungir menn hafa fengið að spreyta sig í 1. deildinni og þá sagði Stefán árangur kvennaliðs félagsins hafa farið fram úr björtustu vonum.
 
 
„Ráðningarferlið á Israel Martin var ansi langt en þetta er þjálfari með flottan feril, einhver 14 ár á Spáni og m.a. aðstoðarþjálfari hjá Gran Canaria og eins hefur hann starfað í Kosovo. Hann er núna að klára sitt tímabil úti en er væntanlegur til landsins í ágúst og mun m.a. vera kominn og starfa fyrir unglingalandsmótið sem fer fram hér á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina,“ sagði Stefán. Tindastólsmenn eru þegar farnir að huga að næstu leiktíð og hafa framlengt við Darrell Flake og flestir leikmenn félagsins eru á samning út næsta tímabil.
 
„Við ætlum bara að halda okkar stefnu, ungu pungarnir fá alla sénsa sem þeim mögulega býðst enda eru þeir að standa sig vel en það er ljóst að við þurfum að styrkja okkur í sumrinu. Ef 4+1 reglan verður áfram við lýði er ekki ósennilegt að þörf verði á leikmanni í teiginn,“ sagði Stefán, hann á því ekki von á því að  Antoine Proctor fái áframhaldandi samning í Síkinu.
 
„Það eru strákar hérna á aldrinum 18-20 ára sem eru allir á samningum og ætla sér ekkert að vera bara með, það er hungur í þeim. Við semjum aftur við frjálsíþróttaþjálfara til að sinna okkar leikmönnum svo það verður æft alla daga í sumar.”
  
Fréttir
- Auglýsing -