Þeir félagar Elvar Már og Martin hjá LIU Blackbirds voru sjóðandi í fjórða sigurleik Brooklyn háskólans í röð, nú gegn University of New Hampshire 73-72 eftir framlengdan leik. Saman skoruðu þeir 34 af 73 stigum Svartþrastanna. Elvar gat hreinlega ekki klikkað á skoti í fyrri hálfleik og svo í þeim seinni tók Martin við.
LIU komst snemma fram úr með góða forystu 27-12 eftir tæplega 12 mínútna leik, en þá fór varnaleikur UNH að smella saman og þeim tókst að éta upp 15 stiga forystu okkar manna.
Þegar 16 sekúndur voru eftir af venjulegum leiktíma, í stöðunni 64-63 voru UNH á línunni fyrir 2 skot og hefðu getað klárað leikinn þar en brenndu af seinna skotinu. Elvar endaði með boltann langt fyrir utan þriggja stiga línuna, rétt áður en klukkan rann út en skot hans fór forgörðum, og leikurinn fór í framlengingu.
Í framlengingunni tók Landon Atterberry, leikmaður LIU, leikinn í sínar hendur. Setti nokkrar mikilvægar körfur en þegar staðan orðin 71-72 og aðeins tími fyrir eina sókn hjá LIU ákvað Jack Perri að taka ekki leikhlé heldur láta strákana spila út leikinn. Martin Hermannsson þakkaði pent fyrir og setti sniðskot í körfuna þegar 6 sekúndur voru eftir. UNH fengu tvær tilraunir til að loka leiknum en brenndu af í báðum þeirra og fjórði sigur LIU í röð staðreynd.
Mynd: Elvar og Martin sýndu mátt sinn og megin í gærkvöldi gegn University of New Hampshire. (Bob Dea)
Hér er blaðamannafundur eftir leikinn gegn Florida International háskólanum þar sem Elvar Már skoraði 17 stig og þar af 10 stig í röð um miðjan seinni hálfleik. Elvar og Martin eru báðir spurðir um muninn á háskólaboltanum og íslenska boltanum.



