spot_img
HomeFréttirMartin kvaddi með 45 stigum í sigri KR á Haukum (Umfjöllun)

Martin kvaddi með 45 stigum í sigri KR á Haukum (Umfjöllun)

18:48
{mosimage}

(Monique Martin á fleygiferð í DHL-Höllinni) 

Nýliðar KR höfðu í dag öruggan 89-75 sigur á Íslands- og bikarmeisturum Hauka í Iceland Express deild kvenna. Monique Martin var allt í öllu í sterku liði KR og setti niður 45 stig í leiknum. Kristrún Sigurjónsdóttir var atkvæðamest í liði Hauka með 19 stig en síðari hálfleikur Hauka var afleitur og það nýttu nýliðarnir sér vel með góðum varnarleik. Monique Martin lék í dag sinn síðasta leik fyrir KR en hún verður að hætta leik með félaginu sökum beinmars á hægri rist en hún hefur verið að leika meidd eftir áramót með KR.  

Kiera Hardy opnaði leikinn fyrir Hauka með löngum þrist og upphófst mikið sóknaræði beggja liða sem skoruðu á víxl en gleymdu að leika vörn. Fyrir vikið var staðan 24-29 Hauka í vil þegar fyrsta leikhluta var lokið. Telma B. Fjalarsdóttir var einum of áköf í fyrsta leikhluta og fékk í honum þrjár villur. 

KR konur reyndust mun grimmari í öðrum leikhluta og Rakel Viggósdóttir leikmaður KR jafnaði leikinn í 35-35 af vítalínunni. Ragna Margrét Brynjarsdóttir var skæði í teignum fyrir Hauka og tók 7 fráköst og skoraði 9 stig í dag. Annar leikhlutinn var nokkuð í eigu KR sem gerðu 20 stig gegn 11 frá Haukum og því staðan 44-40 fyrir KR þegar flautað var til hálfleiks. 

Monique Martin fór á kostum í fyrri hálfleik og setti 30 stig en Ragna var stigahæst í liði Hauka með 9 stig í hálfleik.  

Sigrún Ámundadóttir gerði fyrstu stig síðari hálfleiks úr þriggja stiga körfu og breytti stöðunni í 51-40 og eftir það litu KR-ingar aldrei til baka. KR vann þriðja leikhluta 24-12 gegn bitlausum Haukum sem tóku erfið skot sem rötuðu ekki rétta leið. Sem dæmi má nefna setti Kiera Hardy aðeins 3 af 12 teigskotum sínum og 2 af 13 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 68-52 KR í vil og fátt sem benti til þess að Haukar kæmust að nýju inn í leikinn.  

{mosimage}

Í fjórða leikhluta náðu KR allt að 20 stiga forskoti en Haukar náðu samt að saxa það niður og með því að gera 9 stig í röð gegn engu frá KR var staðan orðin 84-73. Heimamenn létu það ekki á sig fá heldur héldu Haukum fjarri og unnu sannfærandi sigur 89-75.  

Leikur KR og Hauka var fremur tilþrifalítill og ber þar helst að nefna að Monique Martin setti 45 stig í kveðjuleik sínum fyrir KR. Vafalítið verður mikil eftirsjá í henni í herbúðum KR-inga en Martin hefur verið einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins til þessa. Næst Martin í liði KR var Sigrún Ámundadóttir með 13 stig og 7 fráköst.  

Stigahæst í liði Hauka var Kristrún Sigurjónsdóttir með 19 stig og 5 fráköst en Unnur Tara Jónsdóttir gerði 18 stig og stal 6  boltum. 

Mögnuð vörn KR var helsti þáttur sigursins hjá nýliðunum en fróðlegt verður að sjá hvernig þær fylla skarð Martin í sókninni sem gerði meira en helming stiga KR í dag.  

Tölfræði leiksins  

[email protected]

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -