spot_img
HomeFréttirMartin Hauksson sæmdur gullmerki KR

Martin Hauksson sæmdur gullmerki KR

Sé snöggt á litið mætti oft ætla að Hermann Hauksson væri enn viðriðinn meistaraflokk KR en svo er nú ekki. Eldri bróðir hans, Martin Hauksson og nafni frumburðar yngri bróður síns er þar á ferðinni og hefur verið um árabil eða allar götur síðan Axel Nikulásson var við stjórnartaumana í Vesturbænum.
 
 
Í dag var Martin sæmdur gullmerki KR með lárviðarsveig fyrir 25 ára starf fyrir klúbbinn. Sjálfur æfði Martin ekki körfubolta en fylgdi yngri bróður sínum Hermanni á alla leiki en það var svo Axel Nikulásson sem tók eftir áhuganum hjá Martin og fékk hann til starfa í kringum liðið. Allar götur síðan þá hefur Martin varla misst úr leik hjá röndóttum nema þeir hafi stangast á við vinnuna hans.
 
Við á Karfan.is höfum heimildir fyrir því að í fyrsta sinn sem Martin missti af leik eftir að hann fór að starfa í kringum meistaraflokk KR þá áttu röndóttir að spila í Stykkishólmi og tóku með sér ranga búningatösku og þurftu fyrir vikið að leika í varabúningum Snæfells þar sem Martin var ekki á svæðinu til að „pabba“ þá.
 
Martin tekur að sér mörg störf í kringum liðið og fékk í dag viðurkenningu fyrir sín góðu störf. Íþróttahreyfingin á Íslandi státar af fjölda einstaklinga eins og honum og án þeirra væri starfið í landinu ansi lítilfjörlegt.
 
Mynd/ Úr einkasafni – Martin við afhendinguna í dag.
  
Fréttir
- Auglýsing -