spot_img
HomeFréttirMarsfárið: Hvernig virkar þetta allt saman?

Marsfárið: Hvernig virkar þetta allt saman?

 
Í þessum pistli verður reynt að útskýra á stuttan og einfaldan hátt keppnisfyrirkomulagið í bandaríska háskólakörfuknattleiknum. Um þessar mundir er lokaspretturinn hafinn í bandarísku háskólakörfunni. Mjög margir skólar eru í NCAA íþróttasambandinu. Það samband er í þremur deildum. Síðan eru til fleiri deildir eins og NAIA og "junior college" sambandið. Þessi sambönd skipuleggja keppnir í mörgum íþróttagreinum.
Í efstu karladeild NCAA eru um 350 lið. Flest þessi lið tilheyra ákveðnum riðlum. Riðlarnir er 31 og þeir eru missterkir. Í hverjum riðli eru á bilinu 8-16 lið. Auk þess eru í efstu deildinni 14 lið sem tilheyra engum riðli.
 
Liðin leika síðan innan riðla, við lið í öðrum riðlum, við lið í öðrum deildum, taka þátt í úrslitakeppnum og … á hverju tímabili leikur hvert lið um 30 leiki. Þeir verða fleiri ef vel gengur í úrslitakeppnum.
 
Úrslitakeppni efstu deildar NCAA hefst 18. mars. Í þeirri keppni leika 64 lið. Keppnisfyrirkomulagið er útsláttarkeppni sem tekur 19 daga, alls eru leiknir 63 leikir á 10 keppnisdögum. (Í rauninni taka 65 lið þátt í keppninni þar sem tvö lið leika svokallaðan "play-in" leik 16. mars.)
 
Allir riðlarnir nema einn (Ivy league) enda með úrslitakeppni. Þau 30 lið sem sigra í riðlaúrslitakeppnunum ásamt liðinu sem er efst í Ivy-deildinni fá öruggt sæti í úrslitakeppninni. Þegar þetta er ritað eru 14 lið búinn að tryggja sig inn í keppnina.
 
Sérstök valnefnd velur síðan 34 lið í viðbót sem hún telur að hafa leikið vel í vetur. Nefndin raðar síðan liðunum 65 í styrkleikaflokka. Þessi nefnd tilkynnir niðurstöður sínar sunnudaginn 13. mars.
 
Þar sem riðlarnir eru missterkir og misstórir þá getur sú staða komið upp að allt að 9 lið komist í lokakeppnina úr einum riðli. Í Big East riðlinum eru 16 lið og spekingar telja líklegt að 8-9 lið komist í lokakeppnina úr þeim riðli.
 
Riðlar sem eiga að jafnaði þrjú eða fleiri lið í lokakeppninni eru nefndir "power"-riðlar. Riðlar sem eiga 1-2 lið í lokakeppninni og eru með lið sem eru líkleg til að vinna a.m.k. einn leik í lokakeppninni eru oft nefndir miðju-riðlar. Þeir riðlar sem eiga bara einn fulltrúa í lokakeppninni og eru með lið sem ekki eru líkleg til að vinna leik í fyrstu umferð lokakeppninnar eru stundum kallaðir smá-riðlar.
 
Þegar þetta er ritað þá telja körfuspekingar að Kansas, Kentucky, Syracuse og Duke verða talin fjögur bestu liðin af valnefnd NCAA og fái þar með auðveldari leið í “Final Four” en önnur lið.
 
Áhugmenn um NCAA er bent á frábæra umfjöllun www.espn.com og www.cnn.com um háskólakörfuna og síðan má sjá fjölmarga leiki beint eða á ská á kapalstöðinni ESPNAmerica sem hægt er að nálgast hjá hinu ágæta fyrirtæki Símanum.
 
Ljósmynd/ Fjendur á fjölunum, Duke og North Carolina hafa eldað saman grátt silfur síðan elstu menn muna í bandaríska háskólaboltanum.
Fréttir
- Auglýsing -