Í kvöld byrjar úrslitakeppni NCAA. Í kvöld og á morgun eru tveir svokallaðir “play in” leikir. Í þeim leikjum eru átta lið að leika um fjögur sæti í 64 liða úrslitunum.
Fyrri leikurinn er á milli Albany (18 sigrar og 14 töp) og Mt. St. Marys (16-16). Þessi lið eru í 16. styrkleikaflokki og eru að leika um réttinn til að mæta hinu sterka Florida liði. Þetta ætti að vera jafningjaleikur. Liðin eru með svipuð vinningshlutföll og samkvæmt RPI formúlunni er Albany metið í 182. sæti af öllum liðunum (349 skólar) í NCAA og Mt. St. Marys í 192. sæti. Albany lenti í fjórða sæti í American East riðlinum en komst inn í NCAA úrslitakeppnina með því að sigra í úrslitakeppninni í sínum riðli. Mt. St. Marys lenti í fimmta sæti í Northeast riðlinum og unnu síðan sína úrslitakeppni nokkuð óvænt. (Gunnar Ólafsson og Elvar Friðriksson munu væntanlega leika í þessum riðli á næsta keppnistímabili.)
Seinni leikurinn er á milli N.C. State (21-13, RPI=54) og Xavier (20-12, RPI=47). Þessi lið eru í 12. styrkleikaflokki, leika ágætis körfuknattleik, hafa staðið sig vel í vetur og eiga góða möguleika á því að leggja hið ofmetna lið St. Louis (25-6, RPI=38, 5. styrkleikaflokkur) í annarri umferðinni. Þess má geta að báðir erlendu leikmenn Njarðvíkur (Tracy Smith og Nikitta Gartrell) í vetur spiluðu einmitt með N.C State.
Valnefndin góða sem lauk störfum síðasta sunnudag fær alltaf mikla gagnrýni á sig. Verk hennar er ekki auðvelt og hún þarf að hafa fjölmörg hliðarskilyrði í huga þegar hún velur inn liðin og parar þau síðan saman.
Oftast hefur gagnrýnin verið vegna liða sem komust ekki inn og liða sem sumir spekingar telja að eigi ekki að vera inni. Almennt má segja að spekingar séu nokkuð sáttir við valið núna. Margir hafa þó gagnrýnt að BYU (22-11, RPI=32, 10. styrkleikaflokkur) skuli vera í keppninni. Þeir koma úr meðalriðli og urðu fyrir því óláni að besti leikmaður þeirra er úr leik vegna hnémeiðsla.
Núna hefur gagnrýnin meira beinst að því valnefndin hefur að mati sérfærðinga gert Midwest riðilinn of sterkan, m.a. með því að setja Louisville í 4. styrkleikaflokk og Kentucky í 8. styrkleikaflokk. Í þessum riðli eru einnig þungavigtarlið eins og Michigan, Duke, Umass og Kansas St. Einnig hefur verið gagnrýnt að Michigan St. skuli vera í 4. styrkleikaflokki.
Veðmangarar í Las Vegas telja sig þekkja háskólakörfuknattleikinn betur en valnefndin umdeilda. Svona mátu Vegas menn vinningslíkur liða síðasta sunnudag:
• Florida – 4:1 (1. styrkleikaflokkur)
• Michigan State – 9:2 (4. styrkleikafl.)
• Arizona – 6:1 (1. styrkleikafl.)
• Kansas – 8:1 (2. styrkleikafl.)
• Wichita State – 15:1 (1. styrkleikafl.)
• Virginia – 15:1 (1. styrkleikafl.)
• Duke – 15:1 (3. styrkleikafl.)
• Syracuse – 15:1 (3. styrkleikafl.)
• Louisville – 15:1 (4. styrkleikafl.)
• Wisconsin – 20:1 (2. styrkleikafl.)
• Michigan – 25:1 (2. styrkleikafl.)
• Villanova – 25:1 (2. styrkleikafl.)
• Creighton – 25:1 (3. styrkleikafl.)



