Það eru 68 lið sem taka þátt í úrslitakeppninni. Hver riðill á a.m.k. einn fulltrúa í úrslitakeppninni. Í Ivy-league er það sigurvegari riðilsins (Harvard í ár) sem vinnur sér þátttökurétt í NCAA. Í hinum riðlunum eru það sigurvegarar í sérstakri úrslitakeppni sem leikin er á nokkrum dögum sem vinna sér réttinn. Þessar úrslitakeppnir hafa verið leiknar á tímabilinu 4. til 16. mars og er þessi tími kallaður „Championship Week“.
Sérstök nefnd velur síðan önnur 36 lið til að fylla upp í lausu sætin í úrslitakeppninni auk þess að styrkleikaraða liðunum. Valnefndin á að velja 36 bestu liðin úr hópi þeirra sem hafa ekki unnið sér sjálfkrafa keppnisrétt og notar hún ýmis tæki og tól til þess. Valnefndin lýkur störfum seinni hluta dags sunnudaginn 16. mars (Selection Sunday). Niðurstöður nefndarinnar eru síðan kynntar í sérstökum sjónvarpsþætti sem er sendur út á sunnudeginum stuttu eftir að síðasta úrslitaleiknum í Championship Week lýkur. Þessi þáttur nýtur mikils áhorfs í BNA.
Liðunum 68 er síðan skipt í fjóra riðla og leikin útsláttarkeppni. Riðlarnir heita East, West, Midwest og South. Liðunum er raðað saman eftir metnum styrkleika, besta liðið fær það lakasta og svo framvegis. Sigurvegarar þessara riðla mætast síðan í undanúrslitum (Final Four) laugardaginn 5. apríl og úrslitaleikurinn verður síðan tveimur dögum síðar. Þessi keppni stendur yfir í þrjár vikur.
Þegar þetta er ritað spá sérfræðingar að Florida (31 sigrar, 2 töp), Arizona (30-4), Wichita State (33-0) og Michigan (25-7) verði metin í efsta styrkleikaflokk.
Íslendingar munu væntanlega eiga fulltrúa í keppninni í ár. Hann heitir Frank Aron Booker og er á fyrsta ári hjá Oklahoma. Frank er fæddur árið 1994 og hefur leikið ágætlega í vetur. Hann sérhæfir sig í þriggja stiga skotum og er að skora að meðaltali um 5 stig á leik. Oklahoma er núna metið í fimmta styrkleikaflokki. Pabbi hans er Franc Booker sem lék fimm keppnistímabil á Íslandi, fyrsta árið á Íslandi skoraði hann um 43 stig á leik, setti 60 stig niður í einum leik og setti mest niður 15 þrista í einum leik.
Síðustu ár hefur verið hægt að fylgjast með keppninni á heimasíðu CBS (www.cbs.com). Einnig er hægt að fylgjast með leikjunum á hinum ýmsu „streymissíðum“. Nú er bara að njóta veislunnar.
Mynd: Frank Booker jr. hjá Oklahoma Sooners. Faðir hans átt það til að hitna ansi vel utan þriggjastigalínurnar fyrir ÍR, Val og Grindvíkinga hér á árum áður.



