Mario Matasovic leikmaður Njarðvíkur sleit krossband í sigri liðsins gegn KR á Meistaravöllum síðasta fimmtudag. Staðfestir þjálfari Njarðvíkur Rúnar Ingi Erlingsson þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Atvikið átti sér stað snemma í seinni hálfleik leiksins, en Mario hafði átt frábæran leik fram að því og endaði sem stigahæsti leikmaður liðsins þrátt fyrir að leika aðeins tæpar 19 mínútur.
Ljóst er að um gífurlegt högg er að ræða fyrir Njarðvíkurliðið, en Mario hefur verið einn af betri leikmönnum deildarinnar á síðustu árum. Þá fékk hann íslenskan ríkisborgararétt nú í sumar og hefði því verið gjaldgengur með íslenska landsliðinu sem leikur fyrstu leiki sína í undankeppni heimsmeistaramótsins nú í lok mánaðar.

Aðspurður um meiðsli Mario og hvaða áhrif þau hafi á lið Njarðvíkur sagði Rúnar ,,Fyrst og fremst er okkur efst í huga að hlúa að Mario , fyrirliðanum okkar, sem eins og gefur að skilja er miður sín. En að sjálfsögðu heldur körfuboltinn áfram að rúlla og við snúum bökum saman og ætlum okkur tvö stig gegn Ármanni heima í næstu umferð og svo metum við stöðuna í landsleikjahléinu.”
Enn frekar sagði Rúnar mögulegar breytingar í farvatninu hjá Njarðvík er varða leikstíl, en ekki leikmannahóp ,,að missa Mario út tímabilið kallar að sjálfsögðu á einhverjar breytingar þar sem við getum ekki fengið neinn í hans stað. Við munum þurfa aðlaga okkar leik að því að vera með minni hæð og fleiri bakverði sem breytir okkar kerfum og okkar leikstíl eitthvað. Það er það sem ég horfi á sem þjálfari þessa stundina að finna lausnir með núverandi hóp og við ekki komnir neitt lengra með aðrar pælingar en við munum setjast yfir stöðuna og ræða málin á næstu dögum.”



