Áfram heldur lið Stjörnunnar að styrkja sig fyrir átök komandi leiktíðar í Dominos deild kvenna. Fyrr í sumar gerði félagið samninga við 9 leikmenn og nú á dögunum svo við 4 nýja. Fréttatilkynning Stjörnunnar er í heild sinni hér fyrir neðan.
María Lind, Jenný, Vilborg og Viktoría til liðs við Stjörnuna
Í vikunni skrifaði körfuknattleiksdeild Stjörnunnar undir samning við fjóra nýja leikmenn hjá meistaraflokki kvenna en það voru þær María Lind Sigurðardóttir, Jenný Harðardóttir, Vilborg Óttarsdóttir og Viktoría Líf Steinþórsdóttir.
María Lind Sigurðardóttir er 27 ára reynslumikill leikmaður er kemur frá Haukum. Á síðasta ári var hún með 5,4 stig og 2,9 fráköst að meðaltali í leik. María Lind mun því koma með mikla reynslu í lið Stjörnunnar og styrkja teiginn enn frekar.
Jenný Harðardóttir er 24 ára og kemur frá Hamar. Á síðasta ári var hún með 4,2 stig og 2.3 fráköst og spilaði að meðaltali 16,40 mínútur. Jenný er hávaxin og öflugur leikmaður sem mun koma með mikla orku inn á völlinn hjá Stjörnunni.
Vilborg Óttarsdóttir er 17 ára efnilegur leikmaður úr Hamri. Fékk hún nokkur tækifæri með liðinu í efstu deild síðasta vetur og á hún framtíðina fyrir sér. Hún mun spila með meistaraflokki í vetur ásamt því að Stjarnan teflir fram sameiginlegu liði með Ármanni í unglingaflokki kvenna.
Viktoría Líf Steinþórsdóttir er 16 ára gömul og kemur úr Grindavík. Síðustu ár var hún valin í bæði u15 og u16 ára landslið Íslands og er þekkt fyrir mikla baráttu innan vallar. Hún hefur fengið nokkur tækifæri með liði Grindavíkur í efstu deild og það verður gaman að fylgjast með henni með Stjörnunni í vetur.
Stjarnan bíður Maríu, Jenný, Vilborgu og Viktoríu innilega velkomna í félagið.