spot_img
HomeFréttirMargréti sagt upp í Keflavík

Margréti sagt upp í Keflavík

Margrét Sturlaugsdóttir þjálfari kvennaliðs Keflavíkur hefur verið sagt upp störfum sem þjálfari liðsins. "Það vita held ég flestir hvað er búið að ganga á.  Ég vil hafa það þannig að sama gengur yfir alla leikmenn liðsins, sama hvað þær heita. Sömu reglurnar gegna yfir alla leikmenn og þá reglu bakka ég einfaldlega ekki með. Þetta er svo sem allt í góðu þannig en auðvitað fúlt að fá ekki að klára það verkefni sem ég byrjaði á." sagði Margrét nú rétt í þessu í samtali við Karfan.is

 

Samkvæmt heimildum þá voru tveir leikmenn liðsins ósáttar með sín hlutskipti í hópnum að einhverjum hluta. Þessi tveir leikmenn tjáðu stjórn félagsins að þær myndu hætta með liðinu ef Margrét yrði áfram þjálfari liðsins. Þetta hefur ekki fengist staðfest, en í miðjum síðasta leik liðsins gegn Grindavík gekk annar þessara leikmanna út úr húsi áður en leiknum lauk sem ýtir að einhverju leyti undir þessar heimildir.  Ingvi Þór Hákonarson stjórnarmaður hjá Keflavík sagði í samtali við Karfan.is að stjórnin myndi ekki tjá sig um þetta mál fyrr en á morgun í fyrsta lagi þar sem þetta hafi allt gerst mjög hratt og að þeir vilji aðeins jafna sig á þessu áður. 

 

Keflavík er sem stendur í þriðja sæti Dominos deildarinnar og spilar gegn Skallagrím í Bikarnum á morgun og mun Marín Rós Karlsdóttir aðstoðarþjálfari sjá um þjálfun liðsins. 

 

Yfirlýsing frá Keflavík

Margrét Sturlaugsdóttir lætur af störfum

Stjórn Körfuknattleiksdeildar Keflavíkur hefur ákveðið að Margrét Sturlaugsdóttir láti af störfum sem aðalþjálfari meistaraflokks Keflavíkurstúlkna.

Stjórn þakkar Margréti fyrir samstarfið í vetur og óskar henni velfarnaðar í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.

Marín Rós Karlsdóttir mun stýra liðinu þar til nýr þjálfari hefur verið ráðinn, en í bikarleiknum á morgun gegn Skallagrím mun Sigurður Ingimundarson vera henni til aðstoðar.

Fréttir
- Auglýsing -