Ísfirðingurinn Birgir Björn Pétursson er eftirsóttur körfuknattleiksmaður en átta lið báru í hann víurnar fyrir næsta keppnistímabil. Meðal annars KFÍ sem reyndi að fá Birgi aftur heim á Ísafjörð en hann lék með KFÍ um tíma, síðast árið 2009. Birgir mun þó leika með Val í vetur, þar sem hann spilaði í fyrra og gekk mjög vel. Birgir Björn leikur sem miðherji enda nálægt tveimur metrum á hæð og sterkur í teignum.
Meiri eftirspurn hefur verið eftir íslenskum leikmönnum fyrir veturinn þar sem KKÍ breytti reglum þannig að hvert lið má aðeins leika með einn erlendan leikmann inni á vellinum í einu. Það mun að líkindum hafa töluverð áhrif á gang liðanna sem hafa sum hver treyst mikið á erlenda leikmenn fram að þessu.
Mynd/ Torfi Magnússon



