23:52
{mosimage}
(Edward Bartlet hóf leikinn á troðslu)
Haukar lönduðu sínum fyrsta sigri í 1. deild karla í kvöld þegar liðið lagði Hött að velli 79-75 á Ásvöllum í Hafnarfirði. Leikmenn beggja liða fóru á kostum og voru Marel Guðlaugsson í Haukum og þeir Ben Hill og Edward Bartlett með flugeldasýningu.
Edward Bartlett setti tóninn strax í fyrstu sókn þegar hann tróð boltanum hressilega í hraðaupphlaupi. Höttur var sterkari í upphafi og leiddi, 4-10, og 8-16 en Haukar náðu aðeins að minnka muninn og staðan 19-22 eftir fyrsta leikhluta. Bæði lið voru að beita pressuvörn og var mikill hraði í leiknum.
Í öðrum leikhluta náðu Haukar að komast yfir í fyrsta skipti þegar þeir skoruðu níu stig í röð og breyttu stöðunni úr 31-37 í 42-37. Þeir leiddu í hálfleik 50-45 en það var hinn magnaði Ben Hill sem átti síðasta orðið í hálfleiknum en hann setti þriggja-stiga flautukörfu.
{mosimage}
(Sigurður Einarsson skoraði 21 stig fyrir Hafnfirðinga)
Í þeim seinni var leikurinn í járnum allan tímann en Haukar ávallt fetinu á undan. Höttur náði að jafna í fyrsta skipti 71-71 þegar skammt var til leiksloka. Liðin skiptust á körfum næstu tvær mínúturnar og var Marel Guðlaugsson áberandi hjá Haukum en hann skoraði sex af átta síðustu stigum Hauka. Í stöðunni 77-75 og með 38 sekúndur eftir klúðraði Edward Bartlett sniðskoti hjá Hetti, en Haukar höfðu átt í töluverðu basli með hann. Haukar fóru í sókn og var brotið á hinum unga Óskari Magnússyni sem fór á línuna með 20 sekúndur eftir. Setti hann bæði vítin sín ofaní ískaldur og kom Haukum fjórum stigum yfir, 79-75. Höttur reyndi að minnka muninn en örvæntingarfull skot þeirra í lokin geiguðu og Haukar unnu með fjórum stigum.
{mosimage}
(Ben Hill setti sjö þrista og tók 16 varnarfráköst)
Leikurinn var afar skemmtilegur og erlendu leikmenn Hattar Ben Hill og Edward Bartlet voru mjög sprækir. Hill var sjóðandi í leiknum og setti sjö þrista og virtust Haukamenn ekki alveg kveikja á perunni þegar hann var fyrir utan þriggja-stiga línuna með boltann. Edward Bartlet var einnig mjög góður og fékk hann upplagt tækifæri í endann til að jafna leikinn.
{mosimage}
(Hinn 19 ára gamli Elvar S. Traustason var sterkur í liði Hauka)
Bestur á vellinum var þó hinn síungi Marel Guðlaugsson en hann skoraði 28 stig og tók 10 fráköst. Hann hélt Haukum inn í leiknum í lokin og fór fyrir sínu liði. Sigurður Einarsson var einnig sterkur með 21 stig og hinn ungi Elvar Steinn Traustason skoraði 18, þar af 16 í þeim fyrri.
Höttur mætir Ármanni á morgun í Laugardalshöll og mega þeir búast við erfiðum leik enda fá þeir litla hvíld fyrir leik morgundagsins.
myndir: [email protected]
{mosimage}
(Jeff Green var litríkur í þessari skyrtu á hliðarlínunni í kvöld)
{mosimage}
(Helgi Einarsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir Hauka í kvöld
hér er hann að skora með sinni fyrstu snertingu)



