spot_img
HomeFréttirMaraþonmaðurinn: Arnar Péturs með nýtt Íslandsmet

Maraþonmaðurinn: Arnar Péturs með nýtt Íslandsmet

 
Blikinn Arnar Pétursson setti um helgina nýtt og glæsilegt Íslandsmet í flokki 20-22 ára karla í maraþoni þegar hann kom í mark á tímanum 2:44,18 klst. í Reykjavíkurmaraþoninu. Arnar var í sumar í úrtaki fyrir EM verkefni U20 ára landslið Íslands í Bosníu og gerði 14,6 stig og gaf 5,2 stoðsendingar að meðaltali í leik með Breiðablik í 1. deild karla á síðasta tímabili.
,,Ég held líka að ég hafi sjálfur átt gamla metið sem ég setti fyrir tveimur árum sem var 2:55,48,“ sagði Arnar í samtali við Karfan.is en er hlaupaferillinn að taka við af körfuboltanum?
 
,,Maður er svolítið á krossgötum í sambandi við körfuboltann og hlaupin. Ég verð með Blikum í ár og tek hlaupin með, svo þarf maður bara að sjá hvað gerist eftir það,“ sagði Arnar sem er engu að síður mjög spenntur fyrir komandi leiktíð með Breiðablik.
 
,,Við erum með mjög ungt lið ásamt nokkrum reyndari gæðaleikmönnum á borð við Steina, Atla og Rúnar Pálma. Við erum með lítið breytt lið frá því í fyrra og held ég að allir séu reynslunni ríkari svo er mórallinn í liðinu virkilega góður þannig að ég er mjög bjartsýnn á framtíðina og sé ekkert nema gleði í herbúðum Breiðabliks.“
 
Fréttir
- Auglýsing -