spot_img
HomeFréttirMaraþon á Völlunum!

Maraþon á Völlunum!

Haukamenn fengu félaga sína úr Val í heimsókn í 6. umferð Subway-deildarinnar þetta kvöldið. Hafnfirðingar eru 2/3 hingað til og sigrarnir tveir komu gegn þeim liðum sem eru föst á botni deildarinnar stigalaus. Undirritaður hefur á tilfinningunni að fjölmiðlaspáin fyrir mótið ergi Maté allnokkuð – fjórða sætið er ekki raunhæft markmið fyrir liðið, eða hvað? Spyrjum Maté út í þetta eftir leik…

Valsarar hafa litið vel út í byrjun tímabils. Að vísu eru þeir aðeins með tveimur stigum meira en Haukar, 3/2, en þeir urðu fyrir ráni í Reykjanesbæ og lentu svo í klónum á sjóðandi Garðbæingum í síðustu umferð. Örugg 2 stig fyrir gestina í kvöld, eða hvað…?

Kúlan: ,,Iss, þarf engan sérfræðing eins og mig í þetta, Haukar vinna bara botnliðin. Solid 76-86 sigur gestanna.“

Byrjunarlið

Haukar: Jalen, Osku, Ville,  Sigvaldi, Okeke

Valur: Jefferson, Benzi, Ástþór, Kiddi, Monteiro

Gangur leiksins

Kúlan var brjáluð yfir því að hafa ekki verið upplýst um byrjunarlið Vals fyrirfram og heimamenn byrjuðu betur. Kári nokkur Jónsson kom hins vegar inn af bekknum hjá Val seint í fyrsta leikhluta og setti 8 stig í röð fyrir sína menn og gestirnir leiddu 20-26 eftir fyrsta fjórðung.

Kúlan hafði áhyggjur af baráttunni undir körfunni fyrir hönd gestanna enda enginn Hjálmar og enginn Kristó í búningi. Jefferson var á köflum að hlaupa sig í óefni í fangið á stóru leikmönnum Hauka en þá er ekki annað að gera en að negla niður þristum! Kári og Kiddi veittu Jefferson liðsinni í þeim geiranum. Haukarnir hefðu mögulega getað nýtt styrk og hæð betur í fyrri hálfleik en sjálfir hafa þeir líka skyttur í sínum röðum, Finnana fræknu og Jalen fremsta í flokki. Í hálfleik leiddu gestirnir 43-53.

Þegar góðar 6 mínútur voru eftir af þriðja leikhluta höfðu heimamenn minnkað muninn í 55-57 og Finnur henti í leikhlé. Það hafði ekki mikið að segja og fyrrnefndar áhyggjur af styrk og hæð gestanna virtust ekki vera ástæðulausar. Heimamenn litu út fyrir að vera komnir með góð tök á leiknum og leiddu með sex stigum, 75-69 fyrir ,,lokaleikhlutann“! Frábær leikhluti hjá Haukum en þeir unnu hann 32-16.

Leikurinn spilaðist áfram ljómandi vel fyrir heimamenn fyrstu mínútur fjórða leikhluta. Þegar 7 mínútur voru eftir af honum voru Haukamenn komnir 12 yfir, 85-73, og þunnskipaðir Valsmenn virtust vera að rifna. Það var hins vegar ekki rétt metið, ekki einu sinni 5 mínútum síðar þegar heimamenn leiddu enn með 11 stigum, 94-83 og aðeins 2 mínútur eftir. Haukar fóru í þann leik að hanga á boltanum og neituðu að reyna að skora og það fengu þeir í bakið. Jefferson var allt í einu búinn að jafna leikinn í 94-94 og enn 43 sekúndur eftir. Valsmenn unnu svo boltann og Monteiro negldi niður þristi þegar 2 sekúndur voru eftir af leiktímanum. Haukar hentu boltanum strax á Ville sem gerði sér lítið fyrir og jafnaði leikinn með skoti yfir allan völlinn! Þvílíkar senur – 97-97 – framlenging!

Jefferson hóf framlenginguna á því að fá sína fimmtu villu, mikið áhyggjuefni fyrir Valsara, einkum sóknarlega. En maður kemur í manns stað og allt var í járnum í framlengingunni. Hinir og þessir stigu upp fyrir sitt lið, Jalen var áberandi hjá Haukum en Hugi setti líka stórar körfur. Hjá Val var Kiddi Páls út um allt en það var Ástþór Svalason sem stal senunni og jafnaði leikinn ískaldur á línunni í blálok framlengingarinnar. Staðan 111-111 og önnur framlenging á leiðinni!

Svalason ákvað að halda uppteknum hætti í framlengingu 2 og setti 4 fyrstu stig sinna manna. Daði Lár henti þá bara niður þristi gegn sínum gömlu liðsfélögum og jafnaði leika í 115-115. Svalason og Kiddi svöruðu því með 7 stigum í röð fyrir gestina, staðan orðin 115-122 og aðeins 1:40 eftir. Dramatíkinni var þó ekki alveg lokið enn, menn voru farnir að þreytast og köstuðu boltanum ítrekað útaf eða í hendurnar á mótherja. Jalen tapaði boltanum, vann hann aftur og minnkaði muninn í 124-126 og nokkrar sekúndur eftir! Kiddi fékk svo tvö vítaskot í kjölfarið en setti bara annað þeirra ofan í! Ville fékk þokkalegt tækifæri til að jafna, aftur, og að þessu sinni sóknarmegin við miðlínu, en boltinn vildi ekki niður. 124-127 sigur gestanna því niðurstaðan eftir svakalegan maraþonleik!

Menn leiksins

Jefferson setti 33 stig fyrir Val, tók 3 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Kiddi var líka frábær, setti 24 stig, tók 14 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Ekki er annað hægt en að taka fram að Finnur tefldi fram 9 leikmönnum í kvöld þrátt fyrir þunnskipaðan hóp, allir settu stig á töfluna og börðust af krafti í 50 mínútur.

Jalen Moore var atkvæðamestur Haukamanna með 34 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar á 46 mínútum! Sama verður að segja um liðsmenn Hauka og Vals, margir lögðu í púkkið í kvöld enda margar mínútur til skiptanna! Daði og Hugi komu t.a.m. inn af bekknum og skiluðu fínum mínútum.

Kjarninn

Körfubolti er oft á tíðum stórkostleg afþreying og þessi leikur var gott dæmi um það. Þvílíkar senur sem áhorfendur fengu!

En körfubolti er líka alvöru keppni og það er ekkert sem heitir jafntefli í íþróttinni fögru. Staðan er sú að Haukar hafa nú tapað fjórum leikjum og aðeins unnið tvo. Það er fátt sem bendir til þess að barátta um heimaleikjarétt verði á borðum fyrir Haukamenn en hver veit nema Maté og Haukar troði slíkum fullyrðingum ofan í kokið á undirrituðum að lokum.

Valsarar sýndu ótrúlega seiglu í kvöld. Hjálmar og Kristó ekki með, Kári ekki 100%, Ástþór og Benóný að koma úr meiðslum, Jefferson spilaði ekki síðustu 10 og Kári ekki síðustu 2…en vinna samt! Frábær liðssigur sem ætti að styrkja liðið fyrir næstu leiki.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -