Í kvöld lýkur tíundu umferð í Domino´s deild karla þegar Stjarnan og Njarðvík mætast í Ásgarði kl. 19:15. Stöð 2 Sport verður með leikinn í beinni útsendingu.
Sigur í kvöld er eftirsóknarverður fyrir bæði lið, það lið sem hefur sigur í kvöld kemst eitt upp í 4. sæti deildarinnar en bæði Stjarnan og Njarðvík eru eitt af fimm liðum sem hafa 10 stig og eru í 4.-8. sæti deildarinnar um þessar mundir.
Stjörnumenn hafa unnið fjóra síðustu leiki sína í Ásgarði í deildinni svo það verður vandasamt verkefni fyrir Njarðvíkinga að ná í tvö stig í kvöld. Þess ber þó að geta að Njarðvíkingar hafa síðustu tvö tímabil unnið deildarleiki sína í Ásgarði, 61-84 í fyrra og 77-87 árið þar á undan svo grænum virðist líða ágætlega í Garðabæ.
Þá snýr Teitur Örlygsson aftur í Garðabæinn en hann eins og allir vita hélt í Ljónagryfjuna í sumar og stýrir Njarðvíkingum sem aðstoðarþjálfari hjá Friðriki Inga Rúnarssyni. Teitur gerði Stjörnuna m.a. í tvígang að bikarmeisturum og fór með liðið í úrslit gegn Grindavík þar sem silfur varð þeirra hlutskipti eftir oddaleik.
Mynd/ Teitur við stjórnvölin hjá Stjörnunni í apríl fyrr á þessu ári.