spot_img
HomeFréttirMálum bæinn rauðan

Málum bæinn rauðan

Ágæta körfuboltafólk!

Á morgun kl. 16 í Schenker höllinni verður háður oddaleikur úrslitarimmu Hauka og Keflavíkinga í átta liða úrslitunum.  Í tilefni dagsins verður öllu tjaldað til enda um beina útsendingu að ræða og nokkuð síðan að karlalið Hauka hefur verið í þetta góðri stöðu. Haukar eru með ungt lið – flestir eru á aldrinum 17-23, strákar sem uppaldir eru hjá félaginu. Haukar hafa undir forystu Ívars Ásgrímssonar og Emils Arnar Sigurðssonar, og með stuðningi Haukafólks, snúið taflinu við í undanförnum leikjum þar sem að ungir og upprennandi leikmenn hafa látið að sér kveða.

 

Haukur Óskarsson hefur komið sterkur inn að undanförnu auk þess að Kristinn Marínósson átti stórleik og að mörgu leyti réði baggamuninn í síðasta leik í Keflavík. Leikurinn var þó langt frá því að vera vel spilaður af hálfu Haukanna. Í næsta leik eiga Haukamenn inni þá Emil Barja, Kára Jónsson og Helga BJörn Einarsson sem létu vægast sagt lítið fyrir sér fara í síðasta leik. Á meðan Keflvíkingar eru komnir með bakið upp við vegg þá eru Haukar á skriði sem ekki sér fyrir endann á. Nú láta Haukar hné fylgja kviði!

Haukamenn erum afskaplega ánægðir með árangurinn af því uppbyggingarstarfi sem hefur átt sér stað undanfarin ár. Í bikarúrslitum KKÍ áttu Haukar fimm lið en það bera merki þess að unnið sé gott starf í Hafnarfirði.  Slík uppbygging gerist ekki án stuðnings frá samstarfsaðilum, bæjaryfirvöldum og ekki síst öllu því Haukafólki sem leggur hönd á plóginn. Stjórn deildarinnar skorar á alla þá sem áhuga hafa á íþróttum að mæta og hvetja Haukastrákana áfram. Stuðningur frá pöllunum getur gert útslagið.

Nú stöndum við sem aldrei fyrr við bakið á þeim og að sjálfsögðu öll í RAUÐU!

Áfram Haukar,
Kjartan Ásmundsson

Formaður körfuknattleiksdeildar Hauka

Pistill af: www.haukar.is 

Fréttir
- Auglýsing -