spot_img
HomeFréttirMainini: Eigum að geta fundið sameiginlega fleti með NBA og ULEB

Mainini: Eigum að geta fundið sameiginlega fleti með NBA og ULEB

 
Yvan Mainini forseti FIBA, alþjóðakörfuknattleikssambandsins, var í heimsókn á Íslandi á dögunum í tilefni af 50 ára afmæli sambandsins. Við æfingabúðir hávaxinna leikmanna hjá KKÍ hélt Mainini snarpan blaðamannafund. Yvan Mainini er fyrrverandi leikmaður og alþjóðadómari, þá var hann forseti franska körfuknattleikssambandsins og er í dag forseti FIBA. Mainini sat ekki einn við borðið en með honum voru m.a. Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ og forseti FIBA Europe, Hannes Sigurbjörn Jónsson formaður KKÍ og Pétur Guðmundsson fyrrum NBA leikmaður og fyrsti Evrópubúinn sem lék í NBA deildinni.
Við upphaf fundarins kvaðst Mainini hrifinn af búðunum sem haldnar voru fyrir hávaxna leikmenn og þá tók hann fram hve ánægður hann væri með störf Ólafs Rafnssonar hjá FIBA Europe enda væri formannsstaðan þar bæði stór og krefjandi. Mainini sagði ennfremur að honum þætti starf KKÍ á Íslandi mjög tilkomumikið og að auðsjánlega væri mannauður íslensks körfuknattleiks gríðarlegur.
 
Í opnum fyrirspurnum á fundinum spurði Karfan.is hvernig gengi að vinna í því að færa keppnisfyrirkomulag landsliða nær því sem þekkist í knattspyrnuheiminum, þ.e. að smáþjóðir á borð við Ísland eigi þess kost að leika gegn stærstu þjóðum heims en þannig hefur knattspyrnunni m.a. tekist að koma snillingum á borð við Cristiano Ronaldo og fleiri á Laugardalsvöll. Mainini brást vel við spurningunni og sagði breytingar í þessa áttina þegar hafnar en vissulega væri þetta umhverfi afar erfitt þar sem þættir eins og t.d. tryggingargjöld leikmanna í NBA deildinni gera landsliðsstarfinu erfitt um vik.
 
Mainini fór ekki leynt með það á fundinum að markmið FIBA væri að gera körfuknattleik að vinsælustu íþrótt heims og að mögulega væru úrræði eins og keppni í 3 á 3 bolta úrræði fyrir minni þjóðir og að áhugi fyrir slíkri keppni væri mikill. Einnig ræddi hann um fjármagn og að á því sviði kepptu fæstir við NBA deildina.
 
Við ræddum stuttlega við Mainini:
 
Hvernig gengur að halda úti risavöxnu sambandi á borð við FIBA þegar kljást þarf við fylkingar eins og NBA og ULEB?
Það er vissulega erfitt en öll vinnum við að sama markmiði. Við viljum þróa körfuknattleik, NBA eru viðskiptasamtök og vilja skiljanlega skapa tekjur en það vill FIBA einnig svo unnt sé að dreifa fjármagni til allra sambandanna. Við eigum að geta fundið sameiginlega fleti á okkar málum, t.d. með því að innvinkla eigendur NBA liða í vinnu með okkur, ef NBA sér einhver sóknarfæri í samstarfi við okkur þá munu þeir vafalítið ganga að borðum með FIBA. Varðandi ULEB, sem eru samtök Meistaradeildar Evrópu, þá tel ég það vel geranlegt að finna samstarfsgrundvöll með þeim.
 
Sérð þú í náinni framtíð miklar breytingar á keppnisfyrirkomulagi landsliða?
Þetta er mikið og erfitt púsl, hugmyndin er að ná einu til fjórum landsleikjahléum á hverri leiktíð, það er vilji FIBA. Þá er mjög mikilvægt fyrir áhorfendur körfuknattleiks að þetta gangi eftir. Við myndum ef þetta gengi eftir hugsanlega sjá pásu í nóvember og febrúar fyrir landsleiki, eitthvað á þessum nótum.
Ein hugmyndin er svo að breyta algerlega dagatalinu hjá körlum og konum en eins og ég sagði þá er púslið erfitt, NBA spilar 82 leiki í venjulegri deildarkeppni og það er virkilega erfitt að finna einhver göt á þeirri dagskrá. Einngi þurfa eigendur NBA liða að greiða sínum leikmönnum háar fjárhæðir, sumum um 20 milljónir dollara á ári, ótrúleg fjárhæð og þegar þú greiðir fólki svona laun þá hefur eigandinn mikil ítök í hverjum leikmanni.
 
Árið 2006 vann Ísland frækinn sigur gegn Frökkum á Evrópumóti U18 ára landsliða. Frakkar voru þá ríkjandi Evrópumeistarar og Mainini fann sig knúinn til þess að geta þess árangurs Íslendinga.
 
,,Þann daginn var ég ekki ánægður með mína menn,“ sagði Mainini sem er franskur. ,,Franska liðið var ríkjandi Evrópumeistari og í liðinu voru sterkir leikmenn á borð við Nicolas Batum sem leikur nú með Portland Trial Blazers. Svona sigrar undirstrika hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að komast aftur í alþjóðlegar keppnir en ég geri mér vel grein fyrir því að ástandið sé erfitt. Fjárhagslegt ástand margra þjóða er erfitt, nefni sem dæmi Portúgali og Grikki ásamt fleirum. Af þessum sökum verðum við að vera hugmyndarík og svara ástandinu og að því vinnur FIBA nú hörðum höndum.“
 
Viðtal/ [email protected]  
Fréttir
- Auglýsing -