Íslenskur körfuknattleikur verður fyrir töluverðri blóðtöku á næstu leiktíð, ef allt gengur eftir eins og Magnús Þór Gunnarsson komst að orði í samtali við Karfan.is rétt í þessu en hann og félagi hans Arnar Freyr Jónsson eru nýkomnir heim frá Danaveldi.
Bæði Arnar og Magnús hafa starfað sem smiðir og leita eftir vinnu ásamt því að leika með Aabyhoj í Árhúsum í Danmörku. „Við vorum úti um helgina og það er útlit fyrir að menn sem koma að liðinu gætu einnig haft verkefni fyrir okkur til vinnu og ef það gengur eftir förum við út í ágústmánuði,“ sagði Magnús en að öðrum kosti verða leikmennirnir áfram hér heima. Magnús áfram í Njarðvík og Arnar í Keflavík þar sem hann skrifaði á dögunum undir tveggja ára samning við félagið eftir að hafa yfirgefið herbúðir Grindavíkur að loknu síðasta tímabili.
„Mér leist vel á þetta úti, Allan Foss þjálfari liðsins er snillingur og við þurftum ekkert að sýna honum spólur af okkur eða neitt slíkt, hann vissi alveg hvernig leikmenn hann gæti verið að fá. Þetta er svipað prógramm úti og hér heima, menn eru að leggja mikið á sig við að gera góðan klúbb þar sem kannski er ekki úr miklum fjármunum að spila,“ sagði Magnús og bætti við að borgin væri ekki af verri endanum og eflaust fjöldamargir Íslendingar sem gætu tekið undir það.
Það ræðst því ekki fyrr en í ágúst næstkomandi hvort Magnús og Arnar fari út en Suðurnesjaliðin Njarðvík og Keflavík missa þá spóna úr sínum aski um leið og allur íslenskur körfuknattleikur.
Ljósmyndir/ Magnús Þór Gunnarsson í ham á efri myndinni, á þeirri neðri er Arnar Freyr Jónsson að gera það sem fáum bakvörðum leiðis, sprengja upp vörn andstæðinganna.




