Íslendingaliðin Værlöse og Aabyhoj mættust í dönsku úrvalsdeildinni í gær á heimavelli Værlöse en þar á mála er Axel Kárason. Magnús Þór Gunnarsson og félagar í Aabyhoj gerðu góða ferð heim til Axels og höfðu betur 65-79 og eru með sigrinum komnir í 4. sæti deildarinnar með 10 stig. Værlöse var þarna að tapa sínum sjöunda leik í röð og vermir botninn ásamt Aalborg Vikings.
Magnús Þór Gunnarsson skoraði 16 stig í leiknum fyrir Aabyhoj á rúmum 32 mínútum. Magnús var einnig með 2 fráköst og 4 stoðsendingar en honum voru mislagðar hendur í þriggja stiga skotunum að þessu sinni með 2 af 9 í þristum en 4 af 5 í teigskotum. Axel gerði 9 stig í liði Værlöse og tók 5 fráköst en Værlöse verður að fara að krækja í stig því annars er það beint aftur niður um deild en liðið komst í úrvalsdeild fyrir þessa leiktíð.
Sigurður Þór Einarsson og Horsens IC léku einnig í gær og burstuðu botnlið Aalborg Vikings 94-66 á heimavelli. Sigurður lék í tæpar 15 mínútur í leiknum og skoraði 6 stig og gaf 2 stoðsendingar. Eftir sigurinn er Horsens í 3. sæti deildarinnar með 10 stig eins og Aabyhoj.
Ljósmynd/ Sanne Berg: Magnús Þór á dögunum í leik gegn Bakken Bears.



