spot_img
HomeFréttirMagnús: Frábært að ná tveimur sigrum í Garðabæ

Magnús: Frábært að ná tveimur sigrum í Garðabæ

,,Þetta var bara frábært í kvöld og gaman að detta svona í gírinn með sterkri liðsheild,“ sagði Magnús Þór Gunnarsson kátur eftir Njarðvíkursigur í oddaleik gegn Stjörnunni. Magnús verður svo í eldlínunni með Njarðvíkingum gegn sínu gamla félagi Keflavík í undanúrslitum, hvernig verður sú rimma?

,,Við lentum illa í þeim í 8-liða úrslitum í fyrra og mætum þeim núna í undanúrslitum, það er betra,“ sagði Magnús en þessa leiktíðina er fátt um góða spámenn enda ein jafnasta deild í manna minnum.

 
,,Þessi deild er búin að vera jöfn í vetur og svo er úrslitakeppnin bara eins og hún er, það skiptir ekki máli hvort maður sé á útivelli eða heimavelli, öll liðin tapa ef þau mæta ekki tilbúin til leiks,“ sagði Magnús og benti á að flestir hefðu eflaust spáð Keflavík 2-0 sigri gegn Tindastól en Stólarnir náðu sigri á Króknum.
 
,,Þá var það líka frábært fyrir okkur að fara tvisvar í Garðabæ og ná í tvo sigra,“ sagði Magnús kátur en hann setti 20 stig í leiknum í kvöld og 18 í þriggja stiga skotum og 12 þeirra komu í fjórða leikhluta.
Fréttir
- Auglýsing -