spot_img
HomeFréttirMagnús fingurbrotinn en verður í búning í kvöld

Magnús fingurbrotinn en verður í búning í kvöld

Vísir.is greindi frá því áðan að Magnús Þór Gunnarsson er puttabrotinn en verður engu að síður í búning í kvöld þegar Keflavík mætir Snæfell í Stykkishólmi.
 
Frétt Vísis um málið:
 
Magnús Gunnarsson, fyrirliði Keflvíkinga, verður til taks á bekknum í kvöld í leik Keflavíkur og Snæfells þó svo hann sé fingurbrotinn. Magnús gat ekki spilað síðasta leik Keflavíkurliðsins er Keflavík tapaði óvænt gegn Skallagrími. Hans var sárt saknað.
 
“Ég verð í búningi í kvöld. Ég ætti að geta barist og spilað vörn hið minnsta. Ég veit ekki hvað ég spila mikið en ég verð til taks,” sagði Magnús en hvað gerðist?
 
“Ég meiddist á æfingu á laugardaginn og puttabrotnaði. Það var baugfingurinn á hægri sem brotnaði. Hann er búinn að vera að plaga mig í tvö ár. Hann brotnaði líka um jólin í fyrra,” sagði Magnús svekktur en hvað gerir hann til að spila í kvöld.
 
“Ég píni mig bara. Við teipum eitthvað saman og svo bryður maður tvær íbufen. Ég hef ekkert æft fyrr en í gær. Þá tók ég fjögur skot. Það fór allt niður,” sagði Magnús léttur.
 
Hann var settur í gifs á mánudaginn en það er nú farið af og fer ekki aftur á.
 
“Puttinn er hvort eð er ónýtur. Ég er búinn að vera með verki og engin ástæða að hætta til að spila núna. Það er leikur í kvöld og svo er vikupása. Það verður gott.”
  
www.visir.is 
Fréttir
- Auglýsing -