spot_img
HomeFréttirMagnús fíflaði Byrd í Stjörnuleiknum

Magnús fíflaði Byrd í Stjörnuleiknum

16:07 

{mosimage}

Enn af Stjörnuleikjum karla og kvenna í körfuknattleik sem fram fóru um síðastliðna helgi. Mörg skemmtileg tilþrif litu dagsins ljós á leikjunum en eitt var það þó sem bar af og var þar fremstur í flokki stórskyttan Magnús Gunnarsson. 

Í síðari hálfleik í karlaleiknum var Magnús í sókn og enginn annar en George Byrd, miðherji Hamars/Selfoss, til varnar langt fyrir utan þriggja stiga línuna. Byrd er nú þekktari fyrir að vera á blokkinni svo Magnús sá sér leik á borði til að leika sér aðeins að stóra manninum. 

Lítið var eftir að skotklukkunni og Byrd í varnarstöðu líkt og hann væri bakvörður. Magnús var með boltann og brá á það ráð að henda honum í ennið á Byrd og fékk Magnús boltann beint til baka af kolli hans. Þetta uppátæki vakti mikla kátinu en það sem á eftir kom vakti aðdáun áhorfenda. 

Þegar Magnús hafði fengið boltann til baka gerði hann snögga gabbhreyfingu til vinstri og Byrd ætlaði að fylgja með. Við það rak Magnús boltann í gegn klofið á Byrd, tók við knettinum hinum megin við miðherja Hamars/Selfoss, stökk upp í þriggja stiga skot og viti menn… boltinn fór beint ofan í og ætlaði allt um koll að keyra í DHL-Höllinni. 

Sjálfur glotti Magnús út í annað eins og honum einum er lagið á meðan Byrd sat eftir með sárt ennið. Á vefsíðu Fjölnismanna er hægt að skoða video frá atburðinum þar sem Magnús leikur Byrd upp úr skónum en það var Pálmar Ragnarsson, Fjölnismaður, sem náði þessu á myndband. 

Smellið hér til að fara á vefsíðu Fjölnis og skoða myndbandið

Fréttir
- Auglýsing -