spot_img
HomeFréttirMagni: Sterkt að halda Snæfell í 64 stigum

Magni: Sterkt að halda Snæfell í 64 stigum

 
Ingvaldur Magni Hafsteinsson var að vonum kátur með sigur Fjölnis á Snæfell í kvöld en fyrir þessa leiktíð söðlaði Magni um, hélt úr Hólminum og gekk í raðir Fjölnis. Magni gerði 5 stig í kvöld og varði 3 skot var einn af máttarstólpunum í þéttri Fjölnisvörninni.
,,Þetta var góður sigur og við unnum þetta á varnarleiknum, alveg frá byrjun til enda. Þeir skora bara 64 stig sem mér finnst bara ansi sterkt á móti liði eins og Snæfell,“ sagði Magni kátur í leikslok en hvar var þetta Fjölnislið fyrir áramót?
 
,,Þetta var bara í framleiðslu hjá okkur,“ sagði Magni sposkur en gerðist svo öllu alvarlegri. ,,Það tekur bara tíma að slípa hlutina til og fá menn til að spila liðsbolta og gera það agað,“ sagði Magni og gerir sér fyllilega grein fyrir mikilvægi leikjanna framundan.
 
,,Við eigum fullt af fjögurra stiga leikjum eftir og það er allt opið í þessu. Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og það er mikil barátta framundan,“ sagði Magni sem í næstu umferð mætir KR en þar á bæ hefur hann einnig verið sem leikmaður.
 
,,Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar heldur ætlum við bara að reyna að gera betur en þegar við mættum þeim síðast. Við ætlum okkur sigur og höfum allir mikla trú á liðinu og á hverjum öðrum,“ sagði Magni vígreifur en Fjölnismenn hafa nú 10 stig í 10. sæti deildarinnar.
 
Fréttir
- Auglýsing -