spot_img
HomeFréttirMagnaður varnarleikur tryggði gular í Höllina (Umfjöllun)

Magnaður varnarleikur tryggði gular í Höllina (Umfjöllun)

23:14
{mosimage}

(Gleðin lét ekki á sér standa í herbúðum Grindavíkur) 

Grindavík mun mæta bikarmeisturum Hauka í Laugardalshöll sunnudaginn 24. febrúar næstkomandi í úrslitaleik Lýsingarbikars kvenna í körfuknattleik. Grindavík og Keflavík mættust í Röstinni í Grindavík í kvöld í undanúrslitaleik keppninnar þar sem Grindavík fór með 66-58 sigur af hólmi en grimm Grindavíkurvörnin lék Keflvíkinga grátt sem í ofanálag voru með afleita skotnýtingu í leiknum. Frá þessu er greint á www.vf.is  

Joanna Skiba, leikstjórnandi Grindavíkur, gerði 15 stig í leiknum öll úr þriggja stiga skotum og hvert þeirra var öðru mikilvægara og til þess fallið að halda Keflvíkingum í skefjum í hvert sinn sem Keflavík komst nærri Grindavík. 

Þetta verður því í fjórða sinn sem Grindvíkingar reyna við bikargullið en síðustu þrjár tilraunir félagsins hafa misheppnast. Síðast léku gular til bikarúrslita gegn ÍS leiktíðina 2005-2006 og máttu þá sætta sig við 73-88 ósigur í Laugardalshöll. 

Leikur kvöldsins einkenndist af nokkurri taugaspennu á báða bóga við upphaf leiksins. Varnir beggja liða voru þéttar en það sem bar í milli var að Grindvíkingar virtust hafa meira sjálfstraust í sínum sóknaraðgerðum. Staðan var 6-6 eftir fimm mínútna leik en þá tóku Grindvíkingar á rás og breyttu stöðunni í 16-6 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta. Ingibjörg Jakobsdóttir kom að vanda inn af bekknum í Grindavíkurliðinu og setti niður þriggja stiga körfu þegar flautan gall í fyrsta leikhluta og Keflvíkingar vissu vart hvaðan á sig stóð veðrið. 

{mosimage}

Joanna Skiba bætti gráu ofan á svart fyrir Keflavík með því að opna annan leikhluta með þriggja stiga körfu og staðan orðin 19-6 fyrir Grindavík. Heimaliðið hrinti gestum sínum út úr öllum þeirra aðgerðum og léku á als oddi í Röstinni. Pálína Gunnlaugsdóttir gaf sig þó ekki svo auðveldlega í Keflavíkurliðinu og var í raun sú eina sem lék af réttri getu í kvöld.  

Um miðbik annars leikhluta leit allt út fyrir að Grindvíkingar væru að gefa eftir og Keflavík minnkaði muninn í 24-16 en þá var það annar unglingalandsliðsmaðurinn í liði Grindavíkur sem hrökk í gang. Íris Sverrisdóttir setti niður tvær mikilvægar þriggja stiga körfur með skömmu milli bili og staðan orðin 32-18 fyrir Grindavík. Petrúnella Skúladóttir gerði svo síðustu stig hálfleiksins fyrir Grindavík og staðan 40-23 fyrir Grindavík sem voru að leika frábæra vörn og skot Keflavíkur fjarri því að fara í netið. 

Pálína reyndi hvað hún gat að koma Keflavík aftur inn í leikinn og setti niður þrist til að minnka muninn í 41-29 og Keflavíkurliðið mun líflegra í þriðja leikhluta en í fyrri hálfleik. Skömmu síðar meiddist TaKesha Watson og haltraði á tréverkið en Keflvíkingar virtust aðeins eflast við mótlætið og minnkuðu muninn í 44-38 þegar um þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Á þessum tíma gerðu Keflvíkingar 15 stig gegn 4 frá Grindavík en þá tóku gular leikhlé. 

Igor Beljanski þjálfari Grindvíkinga hefur skellt nokkrum vel völdum orðum í andlit sinna manna sem komu grimmir inn í lokasprett leikhlutans og náðu að nýju að vænka stöðu sína í 49-38 fyrir fjórða leikhluta.  

TaKesha Watson kom snemma í fjórða leikhluta að nýju inn í lið Keflavíkur en var augljóslega þjáð af meiðslum. Joanna Skiba minnti strax á sig og gerði þrist í upphafi leikhlutans og staðan 52-38 fyrir Grindavík.  

Keflvíkingar börðust af mikilli hörku í vörninni og héldu Grindavík í 66 stigum og oft hefði það dugað Keflavík til sigurs en Grindavíkurvörnin reyndist einfaldlega mun sterkari. Keflvíkingar voru með afleita skotnýtingu í kvöld, bæði var liðið að hitta illa úr opnum skotum og Grindavíkurvörnin að þröngva fram erfið skot hjá Keflavík. 

{mosimage} 

Keflvíkingar hittu aðeins úr 16 af 63 teigskotum sínum og 3 af 17 þriggja stiga skotum og brenndu af fimm vítaskotum. Reyndar var Keflavík með betri skotnýtingu en Grindavík í teignum en þriggja stiga nýting Grindavíkur var mun betri. Ljóst er að Grindvíkingar eru illir viðureignar í Röstinni en liðið hefur ekki tapað á heimavelli síðan 7. nóvember 2007 er þær lágu í framlengingu gegn Íslands- og bikarmeisturum Hauka. 

Tiffany Roberson gerði 19 stig og tók 15 fráköst fyrir Grindavík í kvöld en Skiba setti niður 15 stig. Þá gerði Petrúnella Skúladóttir 12 stig fyrir gula og tók 14 fráköst. Ingibjörg og Íris komu sterkar inn af bekknum og þá börðust þær vel Jovana og Ólöf. 

Hjá Keflavík var allt útlit fyrir að Pálína Gunnlaugsdóttir væri sú eina sem vildi komast í Höllina en hún var grimm á báðum endum vallarins. Hún lék góða vörn á Skibu sem var heit fyrir utan þriggja stiga línuna en að öðru leyti hafði Pálína á henni góðar gætur. Lykilmenn á borð við Watson og Margréti Köru brugðust Keflvíkingum í kvöld. Boltinn vildi einfaldlega ekki í netið hjá Köru sem skoraði aðeins úr 2 af 15 teigskotum sínum. Susanne Biemer var stigahæst hjá Keflavík með 17 stig og 9 fráköst en Pálína gerði 16 stig og tók 10 fráköst.  

Tölfræði leiksins 

www.vf.is

{mosimage}

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -