spot_img
HomeFréttirMagnaður slagur í Hellinum - Stólarnir eiturharðir á lokasprettinum

Magnaður slagur í Hellinum – Stólarnir eiturharðir á lokasprettinum

Allar forsendur voru fyrir stórleik í Hellinum í kvöld þegar Tindastóll kom og heimsótti ÍR og sú varð raunin. Bæði lið með 12 stig fyrir leikinn, bæði lið ætla sér í úrslitakeppnina og úr varð mikil baráttuveisla þar sem Tindastólsmenn mörðu sigur eftir ævintýralegan lokasprett á leiknum. Lokatölur 92-96 Tindastól í vil sem nú sitja í 8. sæti deildarinnar með 14 stig en ÍR fór niður í 10. sætið með 12 stig.
Skagfirðingar mættu með læti í Hellinn, komust í 5-15 í upphafi leiks þar sem Curtis Allen átti m.a. glæsileg tilþrif er hann greip sóknarfrákast í loftinu og tróð með tilþrifum fyrir gestina. Gunnar Sverrisson tók leikhlé fyrir sína menn og það hafði tilætluð áhrif.
 
ÍR-ingar létu ekki skilja sig eftir í reyk heldur börðu sig upp að hlið Tindastóls, 15-18 eftir þrist frá Robert Jarvis. Igor Tratnik reyndist ÍR erfiður og setti 9 stig á heimamenn í fyrsta leikhluta en það voru ÍR-ingar með Hjalta Friðriksson öflugan í teignum sem leiddu 28-27 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Svakalegt atvik átti sér stað seint í upphafsleikhlutanum þegar Ellert Arnarson átti hárbeitta sendingu inn á Hjalta Friðriksson með þeim afleiðingum að Mo Miller og Hreinn Birgisson skullu saman af miklum þunga og Hjalti lagði boltann í körfuna óvaldaður, Miller og Hreini varð þó ekki meint af volkinu en sendingin á heimsmælikvarða!
 
Varnarleikurinn var settur í oddinn hjá liðunum í öðrum leikhluta, aukin harka færðist í spilin en Bárður Eyþórsson tók leikhlé fyrir gestina í stöðunni 32-29 ÍR í vil. Skömmu síðar fékk Kristinn Jónasson dæmt á sig tæknivíti fyrir samskipti sín við dómara leiksins og Stólarnir tóku á rás eftir það, komust í 32-33 en þá svöruðu ÍR-ingar fyrir sig 40-35 eftir þrist frá Þorvaldi Haukssyni.
 
Þröstur Leó var fyrstur manna fram og kom Tindastól í 40-41 á góðum 6-0 kafla gestanna og þegar leikhlutinn var að renna út fékk Robert Jarvis dæmda á sig sína þriðju villu og mátti vel deila um hvort villa væri á ferðinni en það þýðir ekki að deila við dómarann þó Jarvis hafi verið ósáttur við dóminn. Curtis Allen setti niður annað vítið, það síðari vildi ekki niður en þá kom Igor Tratnik aðvífandi, hirti sitt sjöunda frákast og skoraði og kom Tindastól í 42-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik eftir að lokasókn ÍR-inga í fyrri hálfleik fór forgörðum.
 
Hjalti Friðriksson og Nemanja Sovic voru báðir með 11 stig í liði ÍR í hálfleik en hjá Tindastól var Igor Tratnik með 13 stig og 7 fráköst.
 
Varnarleikurinn fékk smá hvíld í þriðja leikhluta eins og í þeim fyrsta, Maurice Miller var að sækja stíft á Ellert Arnarson allan leikhlutann og fórst honum það ágætlega. ÍR-ingar leituðu mikið að Sovic í sókninni en Robert Jarvis fór að hitna og náði að jafna metin í 60-60 með tveimur þristum fyrir ÍR.
 
Skagfirðingar voru þó mun einbeittari á lokasprettinum þar sem Curtis Allen fór mikinn, vann nokkra góða bolta og var líflegur í vörninni en þess á milli tróð kappinn með tilþrifum. Tindastóll vann þriðja leikhluta 23-26 og leiddu því 65-72 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
 
Fjórði leikhluti var æsilegur svo ekki sé nú meira sagt. Svæðisvörn Tindastóls reyndist ÍR erfið framan af leikhlutanum og öll stemmningin var gestanna framan af sem náðu 13 stiga forskoti 66-79. Hér fékk Eiríkur nokkur Önundarson nóg og fór að berja sína menn í ÍR áfram, Eiríkur minnkaði muninn í 74-81 með þrist og annar til viðbótar minnkaði muninn í 81-83 og allt komið í bál og brand í Hellinum, brjáluð stemmning þar sem um 100 stuðningsmenn Stólanna voru mættir með læti.
 
Nemanja Sovic kom ÍR svo í 88-83 og heimamenn á 10-0 kafla þegar gestirnir fóru að bíta frá sér á nýjan leik. Hreinn Birgisson ýtti við sínum mönnum með þrist, 88-86. Upp hófst svo æsilegur lokasprettur og Þröstur Leó Jóhannsson minnkaði muninn í 92-90 þegar 17 sekúndur voru til leiksloka.
 
Hér hófst kafli sem ÍR-ingar vilja gleyma sem fyrst, sárgrætilegur kafli fyrir heimamenn sem lenda í því að brjóta í tvígang á Maurice Miller sem setur niður öll vítin og kemur Tindastól í 92-94 þegar þrjár sekúndur eru til leiksloka. ÍR tekur þá leikhlé og bæði lið eru komin með skotrétt. Miðað við uppleggið á lokasókninni ætluðu heimamenn að stela sigrinum með þriggja stiga körfu því Nemanja Sovict tók innkastið og boltinn barst á Eirík Önundarson sem nær erfiðu skot en annar dómara leiksins flautar af öryggi og dæmir að Eiríkur hafi stigið á hliðarlínuna og Stólarnir eiga því boltann.
 
Hér var björninn unninn og tæknivíti fékk að fjúka á heimamenn í lokin og Miller hélt aftur á línuna og kláraði leikinn fyrir gestina 92-96. Sigurinn hefði í kvöld svo sannarlega verið verðskuldaður í herbúðum beggja liða sem buðu upp á frábæra sýningu með mikilli baráttu og glæsilegum tilþrifum.
 
Stigaskor 
ÍR: Nemanja  Sovic 24/8 fráköst, Robert Jarvis 19/6 fráköst, Hjalti Friðriksson 19/5 fráköst, Eiríkur Önundarson 16/5 fráköst, Ellert Arnarson 5/6 stoðsendingar, Þorvaldur Hauksson 5, Kristinn Jónasson 2, Níels Dungal 2, Friðrik Hjálmarsson 0, Bjarni Valgeirsson 0, Húni Húnfjörð 0. Tindastóll: Maurice Miller 22/8 fráköst/7 stoðsendingar, Curtis Allen 18/6 fráköst, Igor Tratnik 17/15 fráköst/3 varin skot, Svavar Atli Birgisson 11, Helgi Rafn Viggósson 11/5 stoðsendingar, Þröstur Leó Jóhannsson 6, Friðrik Hreinsson 4, Helgi Freyr Margeirsson 4, Hreinn Gunnar Birgisson 3, Rúnar Sveinsson 0, Pálmi Geir Jónsson 0, Loftur Páll Eiríksson 0. 
Byrjunarliðin:
 
ÍR: Robert Jarvis, Ellert Arnarson, Eiríkur Önundarson, Hjalti Friðriksson og Nemanja Sovic.
 
Tindastóll: Maurice Williams, Curtis Allen, Friðrik Hreinsson, Helgi Rafn Viggósson og Igor Tratnik.
 
Punktar:
-Fyrir leikinn í kvöld höfðu bæði lið 12 stig, ÍR í 9. sæti en Tindastóll í 10. sæti.
-ÍR var með 59% nýtingu í teignum í hálfleik, 17,6% þriggja stiga nýtingu og 100% í vítum, 7 af 7.
-Tindastóll var með 61,5% nýtingu í teignum, 20% í þristum og 66,6% í vítum, 8 af 12.
-Eiríkur Önundarson gerði 16 stig fyrir ÍR í fjórða leikhluta.
-Tindastóll mætir svo Keflavík í Poweradeúrslitum bikarkeppninnar á Laugardag.
 
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -