Körfubolti er hröð íþrótt þar sem margt gerist inni á vellinum í einu og á leifturhraða. Það er skipulögð hreyfing út um allan völl. Sóknin reynir að villa fyrir vörninni með sínum hreyfingum en vörnin reynir að takmarka það svæði á vellinum sem óvarið er með sínum. Maður meðtekur einfaldlega ekki alla fegurðina í rauntíma. Nú er undirritaður búinn að liggja yfir hátt í eitt hundrað myndbandsbútum af leik Íslands og Bosníu-Hersegóvínu í Höllinni í síðustu viku og horfa þannig á megnið af leiknum á 1/5 af venjulegum hraða. Þó það taki fimm sinnum lengri tíma en ella, er það hrein unun að sjá hvað þetta landslið okkar er vel skipulagt og mannað leikmönnum sem vita hvað þeir eru að gera.
Maður sér miklu mun betur hversu gríðarlega mikill fagmaður og stjórnandi hann nafni minn Hörður Axel er á vellinum. Bæði í vörn og sókn. Maður sér hversu mikla virðingu Bosníumenn báru fyrir okkar besta-allra-tíma Jóni Arnóri. Í hvert skiptið sem hann snerti boltann var hann tví- ef ekki þrídekkaður en samt sem áður tókst honum að skora 21 stig. Hvað hlutverk Pavel Ermolinskij er fjölþætt þar sem hann eina stundina að stjórna leik Íslands í sókn og hina að dekka stóran og þungan Bosníumann niðri á blokkinni í vörn. Hvað Hlynur Bæringsson, hoppandi á öðrum fæti, er þó mikilvægur fyrir liðið. Hvað hann er ómannlega sterkur fyrir ekki stærri mann en þetta. Maður sér eitthvað nýtt í hverjum leikmanni á 120 römmum á sekúndu.
Það er eitthvað sérstakt við þetta landslið sem fær mann til að fyllast von um eitthvað meira. Áður fyrr sætti maður sig við óbreytt ástand og hafði litlar væntingar – mikið til vegna smæðar landsins og þeirra aðfanga sem við höfðum úr að ráða. Nú hefur maður hins vegar fengið veglegt spark í rassgatið og hristur upp í einhverja geðveiki því við erum að fara á stórmót í fyrsta skiptið í sögu körfuboltans á Íslandi.
Við erum með þjálfara sem virðist kunna að nýta það sem hann hefur – þó með fullri virðingu fyrir öðrum þjálfurum sem hafa verið með landsliðið. Það verður samt að segjast að þetta er vafalítið sterkasta landsliðið sem við höfum haft, með atvinnumenn í hverri stöðu.
Hvað sem því líður þá er árangur erfiðis síðustu ára að skila sér. Þjálfun er betri og metnaðarfyllri en áður, bæði í körfuboltafræðum og líkamlegu atgervi. Aginn er líka miklu meiri. Ungir leikmenn hafa skýr markmið, leggja sig alla fram við að ná þeim og fórna öðru sem jafnaldrar þeirra njóta við á meðan.
Peningarnir flæða ekki beint inn í körfuboltahreyfinguna svo þetta er áunninn árangur en ekki keyptur. Við getum því öll klappað hvoru öðru á bakið fyrir það.
En nóg af rausi frá mér… njótið vel. Ég fæ alla vega gæsahúð í hvert skipti sem ég horfi á þetta.



