Orlando Magic eru greinilega ekki tilbúnir til að leggjast á hliðina og sýndu það með því að leggja Boston Celtics að velli, 113-92, á heimavelli sínum í nótt. Þeir minnkuðu því muninn í einvíginu niður í 3-2.
Eftir hrikalega frammistöðu í fyrstu þremur leikjunum og dálitla heppni í síðasta leik þar sem Boston-menn léku sinn versta leik í langan tíma, fóru tannhjólin loks að snúast hjá Magic í nótt.
Þeir spiluðu hraðan bolta sem Celtics gátu ekki fylgt eftir og voru fljótlega komnir með tök á leiknum. JJ Redick kom sterkur inn af bekknum í öðrum leikhluta í stað hins gagnslausa Vince Carter (11 stig samtals í síðustu tveimur leikjum) og skoraði m.a. tvo þrista í 20-8 kafla hjá Magic.
Þeir héldu forystunni eftir það í miklum hörkuleik þar sem Glen Davis og Marquis Daniels fengu að kenna á olnbogum Dwights Howard og Kendrick Perkins var vísað af velli fyrir að fá tvær tæknivillur. Perkins er því kominn með sjö slíkar í úrslitakeppninni og verður því í banni í næsta leik, og er þar skarð fyrir skildi fyrir Boston því að fáir er eins góðir að verjast Dwight Howard en Perkins.
Jameer Nelson var stigahæstur Magic í leiknum með 24 stig, Howard var með 21 stig 10 fráköst og 5 varin skot og Redick og Rashard Lewis voru með 14 stig hvor.
Hjá Boston var Rasheed Wallace með 21 stig af bekknum og Rajon Rondo var með 19. Heilaga þrenningin hjá þeim var ekki að finna sig þar sem Paul Pierce var með 18 stig, Kevin Garnett 10 og Ray Allen 9.
Næsti leikur fer fram í Boston annað kvöld og verður fróðlegt að sjá hvort Magic nái að kreista fram oddaleik með sigri.
Aldrei hefur neitt NBA lið, í þau 93 skipti sem staðan 3-0 hefur komið upp, náð að sigra fjóra leiki í röð og komast áfram, og raunar hafa aðeins þrjú lið náð að knýja fram oddaleik úr þessari stöðu.



