spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2023Magalending í Miskolc - Stórt tap eftir ágætis byrjun Íslands gegn Ungverjalandi

Magalending í Miskolc – Stórt tap eftir ágætis byrjun Íslands gegn Ungverjalandi

Ungverjaland lagði Ísland í DVTK höllinni í Miskolc í kvöld í undankeppni EuroBasket 2023, 89-49. Eftir leikinn er Ungverjaland í öðru sæti riðilsins með þrjá sigra og tvö töp á meðan að Ísland er í þriðja sætinu með einn sigur og fjögur töp.

Fyrir leik

Fyrir leik kvöldsins munaði aðeins einum sigurleik á liðunum í riðlinum, þar sem að Ungverjaland var með tvo sigra og tvö töp í öðru sætinu á meðan að Ísland var í þriðja sætinu með einn sigur og þrjú töp. Töp Ungverjalands höfðu þó bæði komið á móti toppliði Spánar, sem fyrir lokagluggann voru búnar að tryggja sig á lokamótið.

Aðeins eitt lið öruggt áfram úr riðlinum og aðeins þau lið úr öðru sætum riðlana með besta árangurinn sem komast á lokamótið. Því skipti það ekki aðeins máli fyrir Ungverjaland að vinna þennan leik, heldur hjálpaði þeim að gera það með eins mörgum stigum mögulegt var.

Staða Íslands í riðlinum betri eftir sigur á Rúmeníu í síðasta leik þar sem þær tóku innbyrðissigurinn líka og þar með nánast öruggar með þriðja sætið fyrir þennan virkilega erfiða glugga gegn Ungverjalandi úti og Spáni heima.

Fyrri leikur liðanna í keppninni var í fyrsta glugganum, þann 14. nóvember 2021. Í honum hafði Ungverjaland virkilega öruggan sigur á Íslandi í Ólafssal, 58-115, þar sem að Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu með 15 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.

Íslenska liðið nokkuð breytt frá þessum síðasta leik gegn Ungverjalandi, en þó voru sjö leikmenn liðsins í dag með í leiknum 2021.

Gangur leiks

Það voru heimakonur sem byrjuðu leik kvöldsins ögn betur. Íslenska liðinu gengur ágætlega varnarlega, en eiga virkilega erfitt uppdráttar á sóknarhelmingi vallarins. Munurinn þó aðeins 5 stig þegar 5 mínútur eru liðnar af leiknum, 11-6. Íslenska liðið gerir nokkuð vel að hanga í heimakonum út fyrsta leikhlutann og er munurinn er aðeins 6 stig þegar fjórðungurinn er á enda, 22-16.

Heimakonur ná svo góðum kafla í upphafi annars leikhlutans og ná að keyra forskot sitt í 15 stig þegar 4 mínútur eru eftir af fjórðungnum, 40-25. Íslenska liðið komið í nokkur villuvandræði á þessum tímapunkti og höfðu þurft að rótera ansi vel þessar fyrstu 16 mínútur vegna þess. Ungverjar ná í framhaldinu enn frekar að bæta við forskot sitt og eru komnar 20 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 49-29.

Stigahæst í íslenska liðinu í fyrri hálfleik var Sara Rún með 12 stig, en henni næst var Þóra Kristín Jónsdóttir með 5 stig.

Heimakonur ná svo enn betri tökum á leiknum í upphafi seinni hálfleiksins. Eru gríðarlega fastar fyrir varnarlega og á íslenska liðið í mestu vandræðum með að klára sóknirnar sínar með skotum. Ná á hinum enda vallarins að malla inn nokkrum stigum og klára leikhlutann nokkuð sterkt. Munurinn fyrir lokaleikhlutann 34 stig, 71-37.

Í upphafi þess fjórða varð fljótt ljóst að ungverska liðið ætlaði ekkert að slaka á þó þær væru með unnin leik í höndunum. Bæta enn við forystu sína á fyrstu mínútum fjórðungsins og eru komnar með 40 stiga forskot þegar tæpar fjórar mínútur eru eftir af leiknum, 84-44. Lokamínúturnar voru svo alls ekki spennandi, þó Ísland hafi haldið fengnum hlut á þeim. Niðurstaðan að lokum 40 stiga ósigur, 89-49.

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var atkvæðamest í íslenska liðinu í dag með 19 stig og 6 fráköst. Henni næst var Þóra Kristín Jónsdóttir með 7 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar.

Kjarninn

Íslenska liðið mætti ofjarli sínum í leik kvöldsins, á því er lítill vafi. Gerðu þó á löngum köflum ágætlega og gaman var að sjá hversu vel margir reynsluminni leikmenn gerðu gegn þessum sterka andstæðing. Ísland að sjálfsögðu að spila þennan leik án nokkurra bestu leikmanna liðsins, Dagný Lísa Davíðsdóttir og Helena Sverrisdóttir báðar verið mikið frá vegna meiðsla á þessu tímabili og þá bættist Hildur Björg Kjartansdóttir á meislalistann rétt fyrir brottför. Það er erfitt að hugsa ekki til þess hvort liðið hefði átt enn betri möguleika ef þær hefðu verið heilar.

Hvað svo?

Seinasti leikur keppninnar er viðureign liðsins gegn Spáni heima í Laugardalshöll komandi sunnudag 12. febrúar.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -