spot_img
HomeFréttirMaðurinn er heltekinn af kleinuhringjum

Maðurinn er heltekinn af kleinuhringjum

„Hann er kallaður Ragnar Dunkin´Donuts, hann elskar kleinuhringi og ég sagðist ætla að gefa honum kleinuhring ef við myndum vinna,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson leikmaður Þórs Þorlákshafnar við Karfan.is í dag þegar hann var beðinn um að skýra út meðfylgjandi mynd sem Atli Berg Kárason náði af þeim félögum á Egilsstöðum eftir sigur á Hetti í gær. 

Ragnar Örn Bragason er að minnsta kosti himinlifandi yfir þessari stoðsendingu Baldurs á meðan hann er staddur í viðtali við Gunnar Gunnarsson eftir leikinn. „Svo fór Ragnar í röðina á Dunkin´Donuts um daginn til að reyna að vinna ársbirgðir af kleinuhringjum!“ – og það var ljóst á Baldri þegar Karfan.is ræddi við hann að honum fannst kleinuhringjaást Ragnars helst til of mikil enda Baldur einhver ástsælasti einkaþjálfari Þorlákshafnar. 

 

„Maðurinn er heltekinn af kleinuhringjum, hann skrifaði matardagbók fyrir mig í sumar og þá var hann að jarða „donuts“ í morgunmat! Maður hefur verið að reyna að taka aðeins til í þessu mataræði hjá drengjunum en eftir sigurleiki þá gefur maður smá slaka,“ sagði Baldur en sá hefur verið sigurviss fyrir leikinn gegn Hetti því það er nokkuð ljóst að „Fjallið“ eins og hann er stundum kallaður hefur farið á stúfana til Reykjavíkur, verslað á Dunkin´Donuts, pakkað þeim niður og haft þá klára fyrir Ragnar að leik loknum og verðlaunað sinn mann fyrir vel unnin störf. Ragnar var stigahæstur í liði Þórs í gær með 20 stig og 2 fráköst og að því er virðist á myndinni 2 kleinuhringi líka. 

 

Mynd/ Atli Berg Kárason – svipurinn á Ragnari segir einfaldlega: „Gleðileg jól“

Fréttir
- Auglýsing -