spot_img
HomeFréttirLýsingarbikarinn af stað

Lýsingarbikarinn af stað

10:53

{mosimage}
(Heldur bikarævintýri Þórsara áfram í dag)

Átta liða úrslit Lýsingarbikarsins fara af stað í dag með leikjum í Lýsingarbikar karla og kvenna. Einnig er leikið í 1. deild karla og kvenna ásamt 2. deild karla.


Í Grafarvogi mæta Fjölnismenn 1. deildarliði Þórs frá Þorlákshöfn kl. 16:00. Gengi Fjölnismanna hefur verið afleitt í Iceland Express-deild karla en þeir sitja á botni deildarinnar með sex stig eins og Hamar. Á meðan er gengi Þórs ágætt í 1. deild en þeir eru í 4. sæti deildarinnar. Þór er eina neðri deildarliðið. Heldur bikarævintýri þeirra áfram í dag?

Í Vodafone-höllinni mætast Valur og Keflavík og ef leikurinn verður eitthvað í líkingu við leik þessara liða síðastliðin þriðjudag þá verður þetta rosalegur bikarleikur. Valsstúlkur unnu þá í tvíframlengdum leik. Miðað við stöðu þessara liða í töflunni mætti fyrirfram búast við auðveldum sigri Keflvíkinga en eins og Valsstelpur sýndu á þriðjudag þá gengur enginn með sigur frá Vodafone-höllinni svo auðveldlega. Leikurinn hefst kl. 16:00.

Stórleikur – er ágæt lýsing á leik Grindavíkur og KR í Lýsingarbikar kvenna í dag. Þessi lið eru sjóðandi heit í Iceland Express-deild kvenna og verður leikurinn í dag án efa mikil skemmtun. KR vann Lýsingarbikarmeistara Hauka í fyrsta leik ársins án Monique Martins en hún verður með í dag. Leikurinn hefst kl. 16:00.

{mosimage}
(Fagna Valsstúlkur aftur í dag)

Ferð Hattara um suðurnesin heldur áfram en í dag mæta þeir Þrótti frá Vogum. Þeir spiluðu í gærkvöldi við Reyni Sandgerði og töpuðu í mögnuðum leik 95-94. Leikur Hattar og Þróttar hefst kl. 14:00 og verður erfitt fyrir Hött að spila sinn annan leik á 12 tímum. Þróttarar hafa ekki unnið leik í vetur og eru farnir að lengja eftir fyrsta sigrinum.

Á Ísafirði taka heimamenn á móti Ármann/Þrótti. Ármenningar mæta með Maurice Ingram í sinn fyrsa heila leik en hann gat aðeins leikið seinni hálfleikinn síðast. Gengi KFÍ hefur valdið vonbrigðum í vetur en liðinu var spáð ágætum árangri. Ármenningar eru á góðu róli um miðja 1. deild en hafa styrkt sig með leikmönnum undanfarið. Leikurinn hefst kl. 16:00.

Í 1. deild kvenna verður sannkallaður botnslagur þeir Blikar heimsækja Tindastólsstúlkur. Breiðablik er með einn sigur í sjö leikjum á meðan Sauðkræklingar eru án sigurs i sjö leikjum. Breiðablik verður án Gunnhildar Theodórsdóttur í dag. Kemur fyrsti sigurinn í hús hjá Tindastól eða skilja Blikar þær norðlensku eftir á botninum án stiga. Leikurinn hefst kl. 14:00.

Í 2. deild tekur Brokey á móti Árvaki í Austurbergi kl. 14:00. Í Eyjum taka heimamenn í ÍBV á móti Laugdælum í 2. deild karla og svo er ienn leikur í bikarkeppni 9. flokks karla en þá verður nágrannaslagur þegar ÍBV og Þór Þ. mætast kl. 11:30 í Vestmannaeyjum.

[email protected]

Myndir: Hörður Ásbjörnsson og [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -