Tímabilið er búið hjá Grindvíkingum er Haukar sendu þær gulklæddu í ókærkomið sumarfrí í kvöld. Haukar hins vegar halda áfram og mæta KR í undanúrslitum IE-deildarinnar. Leikið var á Ásvöllum og fögnuðu heimamenn sjö stiga sigri, 81-74 og einvígið 2-0.
Það var alveg ljóst hvað Grindvíkingar lögðu upp fyrir leikinn. Stoppa átti Heather Ezell sem hefur gert mikinn ursla í sóknarleik Hauka og tókst Grindavíkurstúlkum það ágætlega. Heather sem er alveg hreint magnaður leikmaður skilaði samt tvennu fyrir Hauka og fann fyrir vikið Kiki Lund, liðsfélaga sinn, sem var með 30 púnkta fyrir Haukaliðið.
Haukar skoruðu fyrstu stig leiksins af vítalínunni en Petrúnella Skúladóttir svaraði með þriggjastiga skoti. Haukar skoruðu næstu körfu en þá kom flottur kafli hjá Grindvíkingum sem breyttu stöðunni úr 4-3 í 4-11. Haukar minnkuðu muninn í 7-11 og liðin skiptust á næstu körfum á eftir. Haukaliðið komst yfir 18-16 með þriggjastiga skoti frá Helenu Hólm og jafnt var með liðunum eftir leikhlutann 23-23.
Annar leikhluti, sem og leikurinn allur, var gjörsamlega stál í stál. Grindvíkingar náðu yfirhöndinni og leiddu framan af leik með þremur til fjórum stigum en það var ekki fyrr en að fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum að Haukar næðu að jafna leikinn. Eftir það skiptust liðin á körfum þó svo að Haukar næðu að leiða með tveimur til þremur stigum og þrjú stig voru það sem skildu liðin af í hálfleik eftir að Heather Ezell braust inn í teig Grindavíkur og setti niður sniðskotbræðing og staðan 41-38.
Grindavíkurliðið var frekar taktlaust í upphafi þriðja leikhluta en til allrar hamingju fyrir þær þá var Haukaliðið ekkert skárra. Áfram gengu körfurnar ofaní til skiptist en Haukaliðið var þó ávallt með yfirhöndina. Haukaliðið náði þó átta stiga forystu snemma í leikhlutanum en Joanna Skiba svaraði fyrir Grindavík og Helga Hallgrímsdóttir setti niður körfu til viðbótar og minnkaði muninn í þrjú stig. Aftur keyrðu Haukar muninn í átta stig. Nokkuð myndarlegur leikur gestanna varð þess valdandi að munurinn var aðeins eitt stig þegar um 10 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en þá átti Joanna Skiba flotta keyrslu að körfunni og lagði knöttinn ofaní og Grindavík leiddi eftir leikhlutann með einu stigi, 56-57.
Leikmenn gengu inn á völlinn fyrir lokaleikhlutann og var það alveg klárt að nú var bara spurning um hvort liðið vildi sigurinn frekar. Leikurinn var búinn að vera framan af mikil skemmtun með skemmtilegum tilþrifum og var munurinn á liðunum aldrei búinn að vera meiri en átta stig.
Það var engin breyting á fjórða leikhluta en liðin skiptust á körfum og var spennan orðin óbærileg undir lok leikhlutans. Stuðningsmenn Hauka vonuðu að þeirra leikmenn myndu halda þetta út enda ávallt skrefinu á undan á meðan stuðningsmenn Grindavíkur vonuðu að þeirra leikmenn myndu nú fara að taka forystuna af Haukastúlkum. Stuðninsmenn Grindavíkur urðu að ósk sinni þegar fjórar mínútur voru efir af leiknum en þá komust þær gulklæddu yfir í fyrsta sinn í leikhlutanum, 67-68. Haukar skoruðu næstu körfu og Grindavík svaraði aftur um leið.
Í stöðunni 73-72 fyrir Hauka braut Petrúnella Skúladóttir á Helenu Hólm og fékk sína fimmtu villu. Liðin skiptust á að missa boltann í næstu sóknum og það var ekki fyrr en rétt tæp mínúta var eftir að Helga Hallgrímsdóttir skoraði fyrir Grindavík og kom gestunum yfir. Kiki Lund setti niður stóran þrist fyrir Hauka þegar innan við mínúta var eftir og Haukar unnu svo boltann í kjölfarið. Brotið var á Heather Ezell sem fór á línuna og setti niður annað skotið.
Grindavík hélt í sókn og eftir mislukkað þriggjastigaskot frá Michele DeVault héldu Haukar í hraðaupphlaup og á sama tíma og Telma Fjalarsdóttir lagði knöttinn niður fyrir Hauka var dæmd tæknivilla á Jóhann Ólafsson, þjálfara Grindvíkinga fyrir að sparka stól út í loftið. Telma fór á línuna og kláraði dæmið endanlega fyrir Hauka sem fögnuðu vel og rækilega þegar leikurinn kláraðist og sigur Hauka vís.
Kiki Lund var stigahæst Hauka með 30 stig en hún setti niður 8 þriggjastigakörfur en auk þess var hún með 5 fráköst. Heather Ezell var næst henni með 19 stig, 11 stoðsendingar og 7 fráköst.
Hjá Grindavík var Michele DeVault stigahæst með 26 stig og 10 fráköst og Joanna Skiba var með 16 stig og 5 stoðsendingar.
Umfjöllun: [email protected]



