Mótherji Íslands þann 2. september á EuroBasket lið Slóveníu tilkynnti á dögunum hvaða 12 leikmenn það verða sem leika fyrir liðið á mótinu.
Hópinn skipa Luka Doncic, Gregor Hrovat, Robert Jurkovic, Martin Krampelj, Edo Muric, Aleksej Nikolic, Alen Omic, Mark Padjen, Klemen Prepelic, Rok Radovic, Leon Stergar
Luka Scuka.
Það er óhætt að segja að nafn Luka Doncic stökkvi af nafnalistanum þegar farið er yfir hann, en hann hefur verið einn allra besti leikmaður í heiminum á síðustu árum. Skipti frá Dallas Mavericks yfir í stórveldi Los Angeles Lakers á síðasta tímabili í NBA deildinni, en með þeim skilaði hann 28 stigum, 8 fráköstum og 8 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Eðlilega er nokkuð bil á milli hans og næsta leikmanns í liðinu, sem væri líklega fyrrum liðsfélagi Martins Hermannssonar hjá Valencia Klemen Prepelic. Klemen lék með Galatasaray í Tyrklandi og Meistaradeildinni á síðustu leiktíð áður en hann skipti yfir til nýjasta liðs EuroLeague, Dubai Basketball á seinni hluta tímabilsins. Klemen var líklega einn besti leikmaður liðsins í undankeppninni, þar sem hann var með 26 stig og 7 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Þeir tveir, Luka og Klemen, ásamt leikmanni JDA Dijon í Frakklandi Gregor Hrovat eru almennt taldir leiðtogar þessa sterka slóvenska liðs, en aðrir leikmenn liðsins voru í öflugum deildum á síðustu leiktíð, fjórir í heimalandinu Slóveníu, en aðrir dreifðust á efstu deildir Þýskalands, Líbanon og Svartfjallaland.
Slóveníu hefur ekki gengið neitt sérstaklega vel í æfingaleikjum sínum fyrir lokamótið. Hafa unnið einn leik af sex spiluðum og töpuðu stórt fyrir Serbíu á dögunum, 106-72.
Saga þeirra í mótinu er þó nokkuð sterk. Þeir hafa í 15 skipti komist á lokamótið og náðu eftirminnilega að verða Evrópumeistarar 2017, en þá voru þeir einnig í riðil með Íslandi í Helsinki. Þrátt fyrir að það sé eina medalía þeirra í sögunni hafa þeir oftar en ekki staðið sig gríðarlega vel á mótinu. Enduðu í sjötta sæti á síðasta móti árið 2022, fimmta sæti á heimavelli árið 2013 og fjórða sæti árið 2009.



