„Mótið í heildina fór því miður ekki eins og við ætluðum okkur. Mér fannst niðurstaðan ekki gefa raunhæfa mynd af getu okkar í U20 liðinu því að í raun hefðum við getað unnið bæði Svíþjóð og Danmörku,“ sagði Lovísa Björt Henningsdóttir við Karfan.is á dögunum eftir að Ísland hafnaði í 4. sæti Norðurlandamóts U20 ára landsliða.
„Það hefur oft verið talað um að við stöndum okkur vel gegn þessum þjóðum í yngstu landsliðunum en að síðan breikki bilið þegar kemur að U18 og U20. Þetta hefur breyst mikið og í þessu móti vorum við ótrúlega óheppnar að tapa fyrir Svíþjóð með einu stigi eftir að hafa leitt allan leikinn og við hefðum alveg getað leikið betur gegn Danmörku og unnið þær líka, getan var allavega til staðar. Það eina sem mér finnst standa á milli okkar og hinna liðanna á Norðurlöndum er samæfing og landsleikjareynsla en bæði Svíþjóð og Danmörk spila mun fleiri landsleiki heldur en við á hverju ári og eru þ.a.l. betur samæfðar. Getulega séð erum við ekkert síðri en þessar þjóðir,“ sagði Lovísa og sagði stöðuna á U20 boltanum vera góða.
„Ég sé það greinilega að íslenskur körfubolti er í mikilli framför því að áður fyrr þá hefðum við ekki átt mikinn sjéns í stórþjóð eins og Svíþjóð í U20 kvenna. Það eru hörkugóðar stelpur að koma upp og hluti af U20 liðinu, Sara reyndar orðin fastamaður þar og svo erum við allnokkrar farnar að banka fast á A-landsliðsdyrnar,“ sagði Lovísa sem var mjög sátt við íslenska liðið.
„Það sem einkenndi okkar leik var mikil barátta og samheldni, við börðumst fyrir hverjum einasta bolta og sýndum hinum þjóðunum enga virðingu. Þetta er orðið þannig að körfubolti er orðin það stór þáttur í lífi margra okkar að við verðum að hafa trú á því að við getum hlutina því að þá koma framfarirnar í kjölfarið. Ég var í heildina mjög sátt við liðið okkar, þjálfarateymið og sjúkraþjálfarinn til fyrirmyndar og að sjálfsögðu ekki hægt að fá betri fararstjóra. Utanumhaldið og „setup-ið“ á liðinu var fínt, úrslit leikjanna voru okkur óhagstæð en segja ekki til um styrk okkar eða að við séum neitt lakari en þessar þjóðir. Svo fannst mér þetta frábær ferð að enda yngri landsliðsferilinn þó hann endaði ekki á sigri.“



