spot_img
HomeFréttirLovísa Björt vann til verðlauna í Florida

Lovísa Björt vann til verðlauna í Florida

Ekkert lát er á árangri fulltrúa okkar íslensku útrásinni í Bandaríkjunum. Einn þessarra fulltrúa okkar er Lovísa Björt Henningsdóttir, leikmaður Hauka hér á Íslandi. Lovísa hefur verið nemandi og leikmaður The Rock miðskólans í Gainesville, Flórída.
 
Áður en hún fór út varð Lovísa bikarmeistari með kvennaliði Hauka í fyrra. Hún skoraði 5,6 stig í leik á rúmlega 16 mínútum. Hún tók þar að auki 3,2 fráköst í leik og leiddi liðið í vörðum skotum með 1,5 í leik. Þar að auki skaut hún best allra Haukastúlkna utan þriggja stiga línunnar með 34,5% nýtingu.
 
Öll þessi reynsla Lovísu skilaði sér heldur betur í vetur fyrir hana þegar hún hóf leik með liði The Rock í haust.
 
“Lovísa hefur verið lykillinn að velgengni liðsins í vetur,” sagði Bert Quarles, þjálfari liðsins í samtali við Karfan.is, en Lovísa hefur átt stóran þátt í því að liðið lenti í 2. sæti síns riðils eftir veturinn með 17 sigra og 6 töp. “Hún hefur verið frábær leiðtogi, innan vallar sem og utan.”
 
Ekki nóg með það að spila frábærlega fyrir liðið hefur Lovísa einnig verið að miðla sinni þekkingu til yngri nemenda og leikmanna skólans, að sögn Quarles. 
 
Lovísa skoraði 17,8 stig í leik og tók 8,1 frákast. Hún setti einnig niður 3-6 þrista í leik. Lovísa lét heldur ekki sitt eftir liggja í vörn og stal 3,3 boltum í leik og varði 3,1 skot.
 
 
Lovísa vann til verðlauna eftir veturinn en hún fékk það sem skólinn kallar The Lions Heart Award, en þau verðlaun eru veitt þeim nemanda sem skarar hvað mest fram úr í hvort tveggja íþróttum og námsárangri. Árangur hennar innan vallar er ótvíræður en utan vallar er hún með “straight A’s” eins og sagt er um framúrskarandi nemendur vestan hafs.
 
Lovísa hefur fengið nokkur tilboð um skólastyrk frá háskólum á svæðinu og einnig í Tennessee og flest allt frá 1. deildar háskólum (Division I NCAA).
 
Lovísa Björt var nýverið valin í 24 manna æfingahóp landsliðs U20 kvenna fyrir Norðurlandamótið sem haldið verður Danmörku um miðjan júní.
 
 
Myndir:  Lovísa Björt, Facebook.
Fréttir
- Auglýsing -