spot_img
HomeFréttirLovísa Björt þarf í aðgerð og gefur ekki kost á sér í...

Lovísa Björt þarf í aðgerð og gefur ekki kost á sér í landsliðið

Lovísa Björt Henningsdóttir leikmaður Marist háskólans og íslenska landsliðsins hefur tilkynnt Ívari Ásgrímssyni landsliðsþjálfara að hún gefi ekki kost á sér í landsliðsverkefni næsta sumars vegna meiðsla. 

 

Þetta staðfesti Lovísa í samtali við Karfan.is í gærkvöldi. Lovísa hefur verið að glíma við meiðsli í allan vetur með Marist sem nú er ljóst að eru alvarlegri en fyrst var talið og þarf að meðhöndla þau með aðgerð. Meiðslin eru á mjöðm þar sem IT bandið er á vitlausum stað, brjósk í mjöðminni rifnaði algjörlega og auka bein myndaðist í mjöðminni. 

 

Þetta þýðir að Lovísa þarf að gangast undir aðgerð á mjöðm og fer hún fram næstkomandi þriðjudag í Bandaríkjunum þar sem hún nemur og leikur körfubolta. Lovísa viðurkenndi að meiðslin væru mun alvarlegri en hún hafi búist við en það hafi farið að renna á hana tvær grímur þegar hún var send í gríðarlegt magn af myndatökum.  

 

„Þannig að þetta er aðeins stærri aðgerð en ég bjóst við þar sem ég spilaði á þessum meiðslum allt tímabil en ég verð fljót að koma til baka“ sagði Lovísa við Karfan.is. 

 

Endurhæfingin eftir aðgerðina getur tekið allt að sex mánuði en A-landsliði kvenna kemur saman í sumar og því ljóst að Lovísa getur ekki leikið með liðinu. Lovísa hefur bankað á landsliðsdyrnar síðustu tvö ár en ekki getað tekið þátt í verkefnum í undankeppni Eurobasket vegna þess að það skarast við skólaárið hjá Marist. 

Fréttir
- Auglýsing -