Boston réttu úr kútnum eftir fjóra ósigra í röð þegar þeir lögðu Toronto á heimavelli þeirra síðarnefndu fyrr í kvöld.
Lokatölur voru 88-94. Það var fyrst og fremst frábær leikur Rays Allen sem tryggði sigurinn, en kappinn var með 36 stig, þar af 8 þrista úr 10 skotum.
Toronto byrjaði betur í leiknum en missti dampinn eftir fyrstu mínúturnar. Leikmenn liðsins voru alls ekki að standa sig lengi vel eftir það og voru 20 stigum undir þegar komið var inn í fjórða leikhluta. Fram að því höfðu þeir hitt úr fleiri vítum (19) en skotum utan af velli (16), en hlutirnir áttu eftir að breytast. Heimaliðið tók flugið og saxaði jafnt og þétt á forskot meistaranna og komst niður í fimm stiga mun, 83-88, með 3ja stiga körfu Andrea Bargnani.
Eftir það héldu Boston-menn fengnum hlut og hafa eflaust andað léttar í leikslok.
Liðin mætast aftur á morgun og þá í Boston.
Fleiri leikir eru á dagskrá í NBA í kvöld og í nótt og verður þeim gerð skil hér á Körfunni.is á morgun.
ÞJ