Í kvöld fer fram lokaumferðin í Domino´s-deild kvenna. Um hreinan úrslitaleik er að ræða í viðureign Grindavíkur og Vals í Röstinni en þar er í boði síðasta sætið inn í sjálfa úrslitakeppnina. Valur hefur 2-1 betur í deildarrimmum liðanna og kemst í úrslitakeppnina með sigri. Grindavíkursigur jafnar deildarrimmuna sem þá mun ekki skipta máli því Grindavík tekur þá fjögurra stiga forskot á Val.
Til að Breiðablik bjargi sér frá falli þá þurfa Blikastúlkur að leggja deildarmeistara Snæfells í kvöld og treysta því að KR tapi í Schenkerhöllinni gegn Haukum. Breiðablik hefur innbyrðis betur gegn KR, staðan í deildarrimmum liðanna er 2-2 en Breiðablik er 7 stig í plús svo þeim dugir sigur gegn Snæfell og tap hjá KR. Tapi Blikar gegn Snæfell í kvöld bíður 1. deildin þeirra á næstu leiktíð.
Hvað varðar Hamar þá eru Hvergerðingar búnir með sitt tímabil eftir kvöldið, sætið er öruggt í úrvalsdeild og vitað að þær muni ekki ná inn í úrslitakeppnina. Í öllu falli eru það engu að síður þrjú lið sem leika sinn síðasta mótsleik í kvöld en það eru Breiðablik, KR, Hamar og svo annað hvort Valur eða Grindavík.
Leikir kvöldsins í Domino´s-deild kvenna, 19:15
Haukar-KR
Breiðablik-Snæfell
Hamar-Keflavík
Grindavík-Valur
Mynd/ Hildur Sig. og Hólmarar mæta í Smárann í kvöld þar sem Blikar munu berjast fyrir lífi sínu.



