Mitteldeutcher Basketball Club tók í gær á móti Brose Baskets í þýsku Bundesligunni. Liðið með minnsta heimavöll deildarinnar, minnsta veskið en ört stækkandi hjarta að því er virðist. MBC skaut Brose skelk í bringu í gær þar sem lokatölur voru 56-58 meisturum Brose í vil.
Brose Baskets eru meistarar síðustu þriggja ára hér í Þýskalandi og heimamenn fjölmenntu í gær til að sjá toppliðið, sem einnig gerir það víðreist í Euroleague, leika á móti nýliðum MBC sem fyrir leikinn voru tíu sætum neðar í deildinni.
Varnarleikur beggja liða var afbragð strax frá fyrstu mínútu og menn fengu að spila stíft, lítið flautað hjá dómurum leiksins sem gáfu Brose endrum og sinnum nánast lygilega prinsessumeðferð í leiknum. Lýti á leiknum því þarna virtist svo vera að aðeins annað liðið nyti virðingar dómara leiksins.
MBC byrjuðu vel með Hörð Axel Vilhjálmsson í stöðu leikstjórnanda. Grafarvogspilturinn var klár í slaginn og háði mikla rimmu við Bandaríkjamanninn John Goldsperry. Staðan var 9-14 fyrir Brose að loknum fyrsta leikhluta, bæði lið hittu illa og komust oft lítt áleiðis þar sem ofuráhersla beggja liða á varnarleikinn dró máttinn úr mönnum á sóknarendanum.
Stuðningsmenn MBC létu vel í sér heyra og vösk trommusveit stóð vaktina í fullar 40 mínútur. Litla liðið, MBC, var þó alltaf litlu skrefi á eftir meisturunum. Sharrod Ford reyndist MBC erfiður og var með fingurna í hverju einasta frákasti og Brose komust í 11-24 en tóku svo 12-5 rispu undir lok fyrsta leikhluta og staðan 23-29 í hálfleik. Nánast handboltatölur í boði þar sem hver karfa var þyngdar sinnar virði í gulli.
Í þriðja leikhluta héldu Brose áfram um stjórnartaumana, Hörður Axel sendi nokkrar langdrægar á loft og þær vildu ekki niður. Fyrrum Stjörnumaðurinn Djordje Pantelic tók þá nokkrar góðar rispur í teignum og þurfti verulega að hafa fyrir sínu en hann hefði mátt fara alloft á línuna miðað við meðferðina hjá gestunum. Devin Uskoski kláraði þriðja leikhluta af harðfylgi og minnkaði muninn í 42-45 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
MBC komu með látum inn í fjórða leikhluta og opnuðu hann með 6-0 dembu og komust yfir 48-45. Brose skriðu framúr á nýjan leik og komust í 56-58 þegar ein mínúta var eftir. Ekkert var skorað þessa síðustu mínútu en MBC áttu lokasóknina. Heimamenn komu fyrst ekki af skoti og gestirnir blökuðu boltanum útaf undir körfunni. Silvano Poropat þjálfari MBC kallaði sína menn inn í leikhlé og tvennt stóð til boða. Koma boltanum á Kelly Beidler undir körfunni og reyna að jafna eða reyna þriggja stiga skot fyrir sigri. Fyrsta sending fór á Beidler en dómarar stöðvuðu leikinn, sáu eitthvað athugavert svo Beidler hugmyndin var úti. Næsta tilraun var að koma boltanum á Devin Uskoski sem tók þriggja stiga skot og áhorfendur héldu niðri í sér andanum og mátti heyra háværa stunu í húsinu þegar boltinn dansaði af hringnum…Brose fögnuðu sigri og máttu prísa sig sæla með þessi tvö stig.
MBC hóf þessa leiktíð illa en hafa hægt og bítandi verið að vinna sig upp stöðutöfluna í þýsku úrvalsdeildinni. Þeirra fyrsta og helsta markmið þetta tímabilið er að halda sæti sínu í Bundesligunni og ef áfram heldur sem horfir er liðið komið vel á veg með það markmið sitt.
Djorde Pantelic var stigahæstur í liði MBC með 12 stig og 8 fráköst. Hörður Axel var upptekinn við annað en að skora í leiknum. Brose pressuðu oft og það var vandasamt hlutverk að koma boltanum upp völlinn. Hörður lauk leik með 3 stig og 2 fráköst og brenndi af öllum sex þristunum sínum og þremur teigskotum. Stigin komu af vítalínunni hjá okkar manni að þessu sinni. Kelly Beidler átti góðar rispur með 10 stig og 6 fráköst.
Myndir: Á efri myndinni er Hörður Axel að vinda sér fram hjá hindrun sem Bostjan Nachbar setti upp en á þeirri neðri er Pantelic að troða tveimur af 12 stigum sínum í leiknum.