Síðastliðið föstudagskvöld fór allt upp í háaloft eftir viðureign Þórs úr Þorlákshöfn og Keflavíkur í Domino´s deild karla. Málalyktir urðu þær að Keflavík vann leikinn 93-94 og þeim Mike Cook Jr. og Baldri Þór Ragnarssyni leikmönnum Þórs var vikið úr húsi eftir að lokaflautið gall.
Benedikt Guðmundsson þjálfari Þórs setti inn á Facebook-síðu sína í gærkvöldi: „Mun seint jafna mig á óréttlætinu í þessu ævintýri eftir leik síðasta föstudag. Sumu er hreinlega ekki hægt að kyngja.“
Þá settu Þórsarar myndband af lokasekúndum leiksins inn á Facebook-síðu félagsins í gær. Ljóst er að upptaka var stöðvuð áður en það sést þegar Cook og Baldri er vikið úr húsi eftir leik en það sem sést þó glögglega á myndbandinu er þegar brotið er á Cook er hann sækir að körfunni. Þórsarar töldu að einnig væri brotið á Ragnari Nathanaelssyni í þessari sömu sókn og það viðurkenndi Magnús Þór Gunnarsson leikmaður Keflavíkur í samtali við Gest Einarsson frá Hæli eftir leik. Ekkert var dæmt í þessi tvö skipti og upp úr sauð eftir leik þar sem Cook og Baldri var vikið úr húsi og verða fyrir vikið í banni gegn Val í kvöld.
Það má svo taka undir með Þórsurum að af myndbandinu að dæma er það með hreinum ólíkindum að Cook hafi ekki fengið villu þegar hann keyrði inn í teig Keflvíkinga. Hvað Ragnar varðar sést það ekki svo glöggt.



