spot_img
HomeFréttirLok, lok og læs hjá Keflavík í Borgarnesi

Lok, lok og læs hjá Keflavík í Borgarnesi

Keflavík jafnaði einvígið gegn Skallagrím í Borgarnesi og er staðan því 1-1 í þessu undanúrslitaeinvígi liðanna í Dominos deild kvenna. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið jafn framan af hafði Keflavík betur í hörðum en fjörugum leik.

 

Gangur leiksins:

Leikurinn var jafn í byrjun og þrátt fyrir að heimakonur virtust þurfa að hafa minna fyrir stigunum sínum þá hittu þær ekki nægilega vel úr opnum skotum. Varnarleikur liðanna var mjög sterkur heilt yfir og var lítið um einföld skot. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 15-15 og var fátt sem skildi liðin að.

 

Keflavík náði 14-4 áhlaupi fyrri hluta annars leikfjórðungs. Leikurinn varð mjög líkamlegur og harður. Skallagrímur hreinlega skíttapaði þeirri baráttu á tímabili og fóru að pirra sig um of á dómgæslu leiksins. Tavelyn Tillman tók þá sóknarleik Skallagríms á sínar herðar og hélt muninum í fimm stigum fyrir lok fyrri hálfleiks. 

 

Baráttan og spennan hélt áfram í þriðja leikhluta. Bæði lið þurftu að hafa gríðarlega mikið fyrir öllum sínum stigum en Skallagrímur þó enn meira sem var einungis með tvö stig á fyrstu sex mínútum leikhlutans. Vörn Keflavíkur var gjörsamlega frábær í leikhlutanum og eina ástæða þess að liðið var ekki búið að klára leikinn þá var að vörn Skallagríms hélt einnig vel. Svæðisvörn Skallagríms hélt svo ekki vatni né vindum í lok leikhlutans og Keflavík svaraði öllum áhlaupum heimakvenna. 

 

Staðan fyrir lokafjórðunginn var 41-52 fyrir Keflavík sem hafði ekki gefið forystuna í leiknum frá fyrstu mínútu. Eftir góða byrjun Skallagríms komst Keflavík í gang sóknarlega. Keflavík fann alltaf glufu á vörn Skallagríms sem var götótt. Vörnin var í raun meira en götótt því hún var bara fjarverandi í lok leiksins.  Keflavík fann alltaf góð skot og hitti frábærlega með Thelmu Dís fremsta í flokki. Keflavík sigldi sigrinum heim að lokum 59-74. 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Keflavík hreinlega rústaði frákastabaráttu dagsins. Þær tóku 22 sóknarfráköst í leiknum gegn 12 hjá Skallagrím. Auk þess skoraði Keflavík 21 stig úr þessum fráköstum gegn sex hjá Skallagrím. Þarna liggur einfaldlega munurinn á liðunum í kvöld. 

 

Hetjan:

Thelma Dís Ágústsdóttir var algjörlega frábær í dag. Hún endaði með 20 stig, 6 fráköst og 70% nýtingu í 13 skotum. Hún barðist frábærlega, líkt og allt lið Keflavíkur og spilaði frábæra vörn. Ariana Moorer var þó manna best á vellinum, hún smellti í eina magnaða þrennu með 16 stig, 18 fráköst og 11 stoðsendingar. Hún stjórnaði leik sinna manna frá A-Ö og kom heldur betur til baka eftir dapra frammistöðu í leik 1. 

 

Kjarninn:

Leikurinn var virkilega harður, mikið af villum og líkamlegum bardögum um allan völl. Keflavík fékk að stjórna hraðanum í leiknum og Skallagrímur hljóp með þeim í stað þess að hægja aðeins á og leika á sínum styrkleikum. Skallagrímsliðið á að búa yfir meiri reynslu og styrk en að verða undir í þessari baráttu. 

 

Það verður þó ekki tekið af Keflavík að liðið kom virkilega vel undirbúið og andlega tilbúið til leiks. Leikmenn fundu allar glufur á vörn Skallagríms og voru ávalt rétt staðsettar. Varnarleikurinn var líkt og áður til fyrirmyndar og fékk heimaliðið nánast ekkert ókeypis í leiknum. 

 

Staðan í einvíginu því 1-1 eftir tvo leiki og Keflavík heldur betur búið að spyrna sér aftur á réttan kjöl. Næsti leikur fer fram fimmtudagskvöldið 6. apríl kl 19:15 í Keflavík. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ómar Örn Ragnarsson)

 

Viðtöl eftir leik:

 

 

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Viðtöl / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -