11:00
{mosimage}
Körfuboltalandsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson er eins og stendur samningslaus. Hann lék síðast með spænska 1. deildarliðinu Farho Gijon á Spáni en liðið féll óvænt úr deildinni nú í vor. Frá þessu er greint á www.visir.is
„Strax eftir að tímabilinu lauk sögðu þeir við mig að þeir vildu halda mér," sagði Logi við Fréttablaðið í gær. Hann var þá enn á Spáni en hann kemur hingað til lands á morgun þar sem hann mun æfa með landsliðinu sem er á leið á Smáþjóðaleikana í Mónakó.
„Ég var mjög spenntur fyrir því að vera áfram í Gijon en svo töpuðum við síðasta leiknum afar óvænt og féllum úr deildinni," sagði Logi. Gijon lék í vetur í næstefstu deild á Spáni, sem Logi segir vera afar sterka deild.
„Ég lék í þýsku úrvalsdeildinni og tel að næstefsta deild á Spáni sé sterkari en hún. Körfuboltinn er það góður á Spáni að næstefsta deildin hér er samt ein af þeim fimm sterkustu í Evrópu."
Hann segir að áhugi hans liggi á Spáni. Þar vilji hann spila á næsta tímabili. „Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni. Mér líst í sjálfu sér ekkert það illa á að spila í 2. deildinni með Gijon en ég veit af áhuga annarra liða í 1. deildinni. Ég býst við því að fá tilboð frá Gijon á næstu tveimur vikum og ætla svo að sjá til hvaða möguleika ég hef í stöðunni."
Þar fyrir utan er ekki enn komið á hreint hversu mörg lið spili í 1. deildinni á næsta tímabili og gæti farið svo að fjölgað verði í deildinni. Það myndi þýða að Gijon héldi sæti sínu í spænsku 1. deildinni.
„Það yrði auðvitað frábært fyrir mig. Það er vonandi að þetta komi allt í ljós á næstu vikum, þó að þetta gæti jafnvel ekki orðið klárt fyrr en í júlí."
Logi lék stærstan hluta tímabilsins í Finnlandi, með ToPo Helsinki. Þar stóð hann sig vel og var strax orðinn einn af bestu leikmönnum liðsins.



