spot_img
HomeFréttirLogi til Gijon á Spáni

Logi til Gijon á Spáni

20:18

{mosimage}

 

 

Körfuknattleiksmaðurinn Logi Gunnarsson hefur gert samning út tímabilið við spænska liðið Gijon í 1. deildinni á Spáni en sú deild heitir LEB 1. Logi fer rakleiðis til Spánar í fyrramálið en samningar millum hans og liðsins náðust í dag og mun Logi fara á sína fyrstu æfingu seint annað kvöld og svo er leikur strax á föstudag. Logi hefur dvalið síðustu daga hér heima á Íslandi eftir að finnska liðið ToPo féll úr fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

 

,,Ég fékk hringingu frá umboðsmanni mínum á Spáni í morgun og hann tjáði mér að það væri mikill áhugi frá Gijon að fá mig í sínar raðir,” sagði Logi og nú síðdegis voru samningar í höfn. Gijon er á Norður Spáni og um þessar mundir er stutt í úrslitakeppnina en Gijon berst fyrir tilverurétti sínum í deildinni.

 

Logi á ekki von á því að fara aftur til ToPo í Finnlandi þó hann útiloki ekki þann kost en Logi segir deildirnar á Spáni mun sterkari en á Norðurlöndum. ,,LEB 1 er ein af sterkustu deildunum í Evrópu en hún er næst efsta deildin á Spáni. Ég vil leika á Spáni eða Ítalíu og LEB 1 deildin verður sú sterkasta sem ég hef leikið í til þessa. Hvort ég fari aftur til ToPo er undir því komið hvernig mér mun ganga að koma mér að hjá liði á Spáni,” sagði Logi og segir leikmaðurinn að áhugi frá liðum á Spáni hafi verið töluverður í sinn garð í mest allan vetur.

 

Gijon er í 17. sæti LEB 1 deildarinnar og berst liðið fyrir tilverurétti sínum í deildinni. Liðið þarf að taka þátt í nokkurskonar úrslitakeppni botnliða um áframhaldandi sæti í deildinni. Samningur Loga við Gijon kveður á um að hann verði hjá félaginu uns það hefur lokið sinni þátttöku í mótinu.

 

Þess má geta að Damon Johnson fyrrum leikmaður Keflavíkur leikur í LEB 1 deildinni með Hospitalet svo Logi hittir fyrir á Spáni kunnugleg andlit en á Spáni leikur einnig félagi Loga úr landsliðinu, Jakob Örn Sigurðarson sem og Pavel Ermolinskij.

 

www.vf.is

 

{mosimage}

 

Myndir: Hér á efri myndinni er Logi í landsleik gegn Finnum en neðri myndin er af Gijonborg á Spáni.

Fréttir
- Auglýsing -