spot_img

Logi skellti Stólunum

Gamla brýnið Logi Gunnarsson sýndi gamalkunna takta í Síkinu í kvöld með sigurkörfu fyrir Njarðvík á síðustu sekúndu leiksins gegn Tindastól í kvöld. ´That´s why they pay you the big bucks man!´ heyrðist þegar Njarðvíkingar gengu sigurreifir af velli í kvöld.

Heimamenn í Tindastól byrjuðu leikinn ágætlega í kvöld en eftir um 4 mínútna leik datt botninn úr leik þeirra og gestirnir gengu á lagið og komu stöðunni í 9-17 á rúmum tveggja mínútna kafla. 5 stig frá Tomsick undir lok fyrsta leikhluta löguðu stöðuna aðeins en eftir fyrsta leikhluta leiddu gestirnir 21-25 og fátt um varnir hjá heimamönnum. Gestirnir héldu forystunni inn í annan leikhluta en heimamenn byrjuðu að saxa á forskotið og góður þristur frá Viðari kom muninum í 4 stig eftir rúmlega 3ja mínútna leik. Heimamenn héldu áfram að berjast og loks var eins og hlutirnir færu aðeins að detta með þeim en fátt hafði verið um slíkt fram að því. Tomsick kom Stólum í 40-39 með góðum þrist og annar þristur frá Hannesi eftir leikhlé Njarðvíkur kom muninum í 6 stig fyrir heimamenn góðar körfur frá Tomsick sáu til þess að forysta heimamanna var 7 stig í hálfleik, 49-42.

Njarðvíkingar komu grenjandi óðir inn í seinni hálfleik og voru fljótir að éta þennan mun niðu og komast yfir með 14-2 kafla þar sem Stólar virtust hreinlega sofandi og létu valta yfir sig. Ekki voru menn meira vakandi á bekknum og létu þetta áhlap gestanna ganga yfir sig án þess að taka leikhlé. Hester, Logi og Jón Arnór áttu góðan leik á þessum kafla og fóru illa með vörn Stóla. Jafnvægi komst á leikinn og liðin skiptust á að hafa forystu en Njarðvík leiddi með einu stigi fyrir lokaátökin. Þristur frá Óla bætti í og Hester setti tvö í viðbót og kom muninum í 6 stig 70-76 og útlitið ekki gott hjá heimamönnum. þegar leikklukkan sýndi 36:21 setti Tomsick fallegan þrist og fékk að auku 5. villuna á Hester sem ekki var meira með. Nick setti vítið niður, 4 point play og Tindastóll með 85-82 forystu. Super-Marío jafnaði metin með 5 stigum í röð fyrir gestina, 87-87. Jón Arnór tók svo við og setti næstu 5 stig gestanna en Glover svaraði með troðslu, staðan 89-92

Tomsick jafnaði í 92-92 en síðasta mínútan leið án þess að liðin næu alvöru skoti og því var framlengt. Í framlengingunni var stál í stál en heimamönnum gekk ekkert að koma í veg fyrir að gestirnir skoruðu, og það stundum ansi auðveldlega. Stólar komust yfir en Jón Arnór, sem átti frábæran leik setti tvö víti og fallegt skot sem komu Njarðvík í 95-98. Antanas minnkaði muninn í 1 stig en þristur frá Jóni Arnóri kom muninum aftur í 4 stig 97-101 og spennan gríðarleg. Udras og Glover jöfnuðu fyrir heimamenn 101-101 en Logi var fljótur að svara með sniðskoti. Glover jafnaði með 2 vítum, Veigar Páll náði aftu forystu en Glover jafnaði jafnharðan, 105-105 og mínúta eftir. Logi kastaði svo boltanum útaf og í næstu sókn heimamanna tók Jaka Brodnik þriggja stiga skot ansi snemma, sem klikkaði, í stað þess að leitað væri til stóru mannanna inni í teig en þar var fátt um varnir þar sem Mario, Hester og Óli voru allir komnir með 5 villur. Stólar náðu að verjast næstu sókn gestanna vel því 24 sekúndur liðu án þess að þeir næðu skoti á hringinn. Baldur skipulagði lokasóknina og hún endaði með því að udras lagði knöttinn í körfuna þegar einungis 1.7 sek. var eftir af leiktímanum. Njarðvíkingar tóku leikhlé og leikkerfið sem sett var upp gekk fullkomlega, Logi fékk boltann, eins og allir vissu að hann myndi gera og setti niður erfitt skot fyrir sigrinum!

Hjá heimamönnum átti Shawn Glover frábæran leik með 39 stig og 40 framlagspunkta en segja má að hann hafi verið vannýttur á lokamínútunum. Hjá gestunum átti Jón Arnór frábæran leik, sem og Mario Matasovic en hvor um sig skilaði 25 stigum og Mario 9 fráköstum að auki.

Það er ljóst að Tindastólsmenn verða að fara í alvarlega naflaskoðun með sitt lið, lítið jafnvægi var í leik þeirra, bæði í sókn og vörn. Auk þess var lítil stjórnun af bekknum, ekki síst þegar Njarðvík var að vinna sig aftur inn í leikinn með 14-2 kafla í upphafi seinni hálfleiks án þess að reynt væri að hægja á þeim spretti. Einn útisigur sem vannst með herkjum en tap í báðum heimaleikjunum skilur eftir súrt bragð.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árnason

Fréttir
- Auglýsing -