spot_img
HomeFréttirLogi leggur skóna á hilluna

Logi leggur skóna á hilluna

Bakvörður Njarðvíkur Logi Gunnarsson staðfesti það í samtali við Vísi fyrr í kvöld að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil. Fregnirnar koma eftir að Njarðvík lauk deildarkeppni sinni með sigri gegn Keflavík í Blue Höllinni, en Njarðvík endaði í 2. sæti Subway deildarinnar og mæta Grindavík í 8 liða úrslitum úrslitakeppninnar.

Sagðist Logi hafa hugsað mál sitt vel og að honum þætti þetta komið gott 41 árs gamall eftir 26 tímabil í meistaraflokki.

Logi lék á sínum tíma upp alla yngri flokka Njarðvíkur og svo með meistaraflokki þeirra, þar sem hann hefur unnið þrjá Íslandsmeistaratitla og tvisvar hefur hann orðið bikarmeistari. Þá átti hann góðan feril sem atvinnumaður á meginlandi Evrópu, þar sem hann lék með liðum í Þýskalandi, Finnlandi, Spáni, Frakklandi og Svíþjóð, en á Íslandi hefur hann aðeins leikið fyrir Njarðvík.

Þá var Logi hluti af báðum landsliðum Íslands á lokamóti EuroBasket í Þýskalandi 2015 og í Finnlandi 2017, en hann er fjórði leikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi með 147 leiki leikna frá árinu 2000 til 2018.

Fréttir
- Auglýsing -