Njarðvíkingar framlengdu vonum sínum um úrslitakeppni í kvöld með 79-72 sigri á ÍR í Ljónagryfjunni. Þessi leikur eins og þeir gerast bestir í úrslitakeppninni. Tilþrif, refskák, járn í járn og allur pakkinn. Logi Gunnarsson hlóð undir sjálfstraust Njarðvíkinga er hann fór hamförum í þriðja leikhluta og sá meðbyr vó þungt á erfiðum lokaspretti þar sem Njarðvíkingar höfðu betur.
Troðfull Ljónagryfjan og heyrðist vart mannsins mál frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Nú er ansi athyglisverð staða komin upp, Njarðvík verður að vinna í Þorlákshöfn á fimmtudag til að komast í úrslitakeppnina og ÍR-ingum dugir ekkert annað en sigur gegn Keflavík í næstu umferð. Það dugir skammt að treysta á aðra þessi dægrin, liðunum er hollara að næla sér í tvö stig.
Quincy Hankins-Cole og Matthías Orri Sigurðarson glöddu augað í kvöld og í fyrri hálfleik fór Quincy langt með að rífa niður körfuna en hann varla fékk boltann án þess að troða og troðslunar komu í öllum regnbogans litum. Þetta var auðvitað eins og vatn á myllu stuðningsmanna ÍR-inga sem hafa verið mikið í kastljósinu undanfarið og ekki að ósekju enda hinn alræmdi sjötti maður í stúkunni og drífa liðið langt með ódrepandi stuðningi.
ÍR leiddi 33-37 í hálfleik og fór fyrri hálfleikurinn nánast eingöngu fram í teig liðanna, Njarðvík var 1-13 í þristum í hálfleik og ÍR 1-11 svo það var ráðrúm til þess að detta í gírinn fyrir skyttur beggja liða.
Í þriðja leikhluta var komið að Loga Gunnarssyni. Kallinn snögghitnaði og raðaði niður þristum líkt og Hankins-Cole hafði raðað niður sirkustroðslum í fyrri hálfleik. Matthías Orri jafnaði leikinn fyrir ÍR 47-47 með villu og körfu að auki en Logi mætti strax aftur með þrist og Njarðvíkingar settu 28 stig í leikhlutanum. ÍR-ingar áttu þó lokasprettinn í þriðja og náðu að jafna leikinn 61-61 fyrir fjórða og síðasta.
Refskák í fjórða, dýrkeypt mistök á báða bóga, lítið skorað og allt komið í lás. Nokkrir dómar sem ærðu óstöðuga í báðum liðum en þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks urðu gestirnir fyrir skakkaföllum þegar Danero Thomas fékk sína fimmtu villu og þá búinn að gera 10 stig og taka 10 fráköst en þetta er það næstminnsta sem hann hefur skorað í deild fyrir ÍR í vetur utan átta stiga gegn KR.
Hér tók Myron Dempsey við sér í liði Njarðvíkinga og reyndist traustur á raunastund, setti jafnvel niður vítin sem voru að flækjast fyrir honum framan af leik. Mínúta eftir, dæmdur ruðningur á Hankins-Cole og 5 sekúndum síðar dæmd ólögleg hindrun á Njarðvíkinga. ÍR tókst ekki að nýta þetta til að koma sér nærri og þegar 14 sekúndur voru eftir brutu ÍR-ingar á Birni Kristjánssyni og hann fór langt með leikinn og breytti stöðunni í 77-72. Næsta ÍR sókn gaf ekki stig og Myron Dempsey fór yfir og lokaði leiknum með troðslu fyrir Njarðvíkinga.
Óumdeilt mikilvægustu stig Njarðvíkinga í deildinni til þessa en þeir þurfa tvö til viðbótar til að eiga möguleika á úrslitakeppninni, þeim dugir ekkert annað en sigur gegn Þór Þorlákshöfn í lokaumferðinni. ÍR að sama skapi féll niður í 8. sæti eftir kvöldið og þeir geta ekki um frjálst höfuð strokið frekar en Njarðvíkingar og verða að landa sigri gegn Keflavík í lokaumferðinni.
Logi Gunnarsson var magnaður í kvöld með 26 stig og 5 stoðsendingar í liði Njarðvíkinga og næstur honum var Myron Dempsey með 22 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Hjá ÍR var Quincy Hankins-Cole með myndarlega tvennu, 32 stig og 13 fráköst og fullt hús í einkunn fyrir loftræn tilþrif. Matthías Orri var líka öflugur hjá ÍR með 21 stig, 9 stoðsendingar og 6 fráköst.



