spot_img
HomeFréttirLögðu Evrópumeistarana

Lögðu Evrópumeistarana

{mosimage}

 

„Þetta er eitthvað sem maður hefur ekki upplifað áður,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari U 18 ára landsliðs Íslands í körfuknattleik. Íslenska liðið hafði betur gegn Evrópumeisturum Frakklands á Evrópumótinu í Grikklandi í gær og vöktu úrslitin verðskuldaða athygli. Lokatölur leiksins voru 73-61 Íslendingum í vil þar sem Hörður Helgi Hreiðarsson var stigahæstur með 17 stig. Sigurinn var sá fyrsti hjá U 18 ára liðinu á mótinu.

Keflvíkingurinn Þröstur Leó Jóhannsson fór á kostum í leiknum og þá sér í lagi í þriðja leikhluta þegar Frakkar ætluðu að síga fram úr. Þröstur steig þá upp og setti niður þrjár þriggja stiga körfur á skömmum tíma og hélt Íslandi inni í leiknum.

„Ég hef aldrei séð ungan mann jafn hátt í skýjunum eftir leik eins og Þröstur var í gær,“ sagði Benedikt en Þröstur var valinn maður leiksins og réð sér vart af kæti. „Maður leit í kringum sig og það héldu allir um hausinn á sér í höllinni og voru bara í sjokki. Ungir sem aldnir hér í Grikklandi muna vart eftir jafn óvæntum úrslitum í þessari keppni,“ sagði Benedikt en ekki náðist í Þröst þar sem hann og aðrir leikmenn í liðinu héldu með fararstjórum niður á strönd til þess að slappa af þar sem það er frídagur í Evrópukeppninni í dag. Síðar í dag verður svo dregið í milliriðlana.

Sigurinn var sá sætasti og mikilvægasti á þjálfaraferli Benedikts. „Það þarf ekki að diskútera það, þetta er sætasti sigurinn á mínum þjálfaraferli,“ sagði Benedikt og hann var ekki frá því að sigur gegn Evrópumeisturunum myndi blása auknu sjálfstrausti í íslenska liðið. „Vonandi eru leikmennirnir ekki að ofmetnast en svona sigur gefur að sama skapi mikið sjálfstraust en við verðum að halda okkur á jörðinni ef við ætlum að halda okkur í A-deild,“ sagði Benedikt.

Síðar í dag verður ljóst hvaða lið verði með Íslendingum í milliriðlinum en Benedikt gerir ráð fyrir að þar verði Ísrael, Slóvenía og Lettland. „Róðurinn verður ekki auðveldur því þetta eru allt sterk lið hérna,“ sagði Benedikt að lokum.

Sigur U 18 ára liðsins fellur seint í gleymsku en strákanna bíða krefjandi verkefni og það verður fróðlegt að sjá hvort þeim takist að velgja öðrum stórþjóðum undir uggum á næstu dögum.

Mynd: Þröstur Leó Jóhannsson í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að U 18 ára liðið varð Norðurlandameistari fyrr í sumar.

Frétt og mynd: www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -