spot_img
HomeFréttirLogandi Laugdælir (Umfjöllun)

Logandi Laugdælir (Umfjöllun)

12:09

{mosimage}

Laugdælir rústuðu Álftanes með tæplega fjörtíu stiga mun í 2. deild karla í körfuknattleiks í gærkvöldi. Lokatölur urðu 93-56.

 

Álftnesingar sáu aldrei til sólar í leiknum. Laugdælir skoruðu fyrstu sjö stig leiksins og komust í 12-2 á fyrstu þremur mínútunum áður en gestirnir tóku leikhlé. Þeir héldu í horfinu út fyrsta leikhluta en eftir hann var staðan 28-19. 

Á meðan munurinn hélst í tíu stigum var leikurinn opinn. Álftnesingar minnkuðu hann í átta stig, 35-27 en í kjölfarið fylgdi skelfilegur leikkafli. Í lok annars leikhluta voru heimamenn komnir með þægilega forystu, 45-29. 

{mosimage}

Góðu leikkaflarnir hjá Álftanesi voru stuttir skiluðu liðinu strax. Í lok þriðja leikhluta var staðan orðin 67-41. Laugdælir létu kné fylgja kviði í seinasta fjórðungi og unnu 93-56. 

Laugdælir voru hungraðri allt frá fyrstu mínútu. Í fráköstum gnæfðu þeir ævinlega metra yfir leikmenn Álftnesinga. Hirtu þeir ekki frákastið í fyrstu tilraun tóku þeir það í annarri eða þriðju. Rúllaði bolti laus á vellinum köstuðu tveir Laugdælir sér jafn harðan á hann. Og þó boltinn stefndi á ljóshraða í innkast var alltaf einn rauðliði tilbúinn að kasta sér á eftir honum. Stemmningin í liðinu var frábær. Varamannabekkurinn fagnaði hverju stigi, hverri unninni villu og undir tók stór hópur áhorfenda. 

{mosimage}

Lið Álftaness var algjör andstaða. Sóknarleikurinn var í molum. Leikmenn liðsins voru staðir. Þeir gátu ekki gert einfalda hluti eins og að kasta og grípa. Vörnin sprakk líka. Þegar bakverðir Laugdæla fóru upp í þriggja stiga skot var engan Álftnesing að sjá. Ömurleiki Álftnesinga braust að lokum út í pirringi og ljótum brotum. 

Laugdælir hafa æft af kappi seinustu vikur og uppskera eftir því. Óskar Þórðarson, þjálfari liðsins, sá framfarir í kvöld og hann segir stefnuna setta á úrslitakeppnina. „Vörnin hefur alltaf verið góð hjá okkur en þetta var í fyrsta skipti í vetur sem við spiluðum góða sókn. Við erum með breiðan hóp og viljum spila hraðan leik. Það gekk upp í kvöld. Við komum okkur í þá stöðu að við þurfum að vinna alla leikina sem við eigum eftir til að komast í úrslitakeppnina. Í lokaumferðinni tökum við á móti ÍBV og það verður hreinn úrslitaleikur.“ 

Ragnar Arinbjarnarson, sem stýrði liði Álftaness var stuttur í spuna í leikslok. „Það var engin vörn, engin sókn. Þetta var lélegasti leikur okkar í vetur.“ 

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

{mosimage}

Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -